Starfsemi Vélfags stöðvuð tímabundið

Starfsemi Vélfags stöðvuð tímabundið

Vélfag ehf. hefur stöðvað starfsemi sína tímabundið og sent alla starfsmenn fyrirtækisins heim á meðan beðið er dóms í máli félagsins gegn íslenska ríkinu. Utanríkisráðuneytið synjaði í gær beiðni Vélfags ehf. um frekari framlengingu á tímabundinni undanþágu frá þvingunaraðgerðum.

Í tilkynningu frá Vélfagi segir að ákvörðun ráðuneytisins hafi svipt félagið að aðgengi að eigin fjármunum og gert því ómögulegt að sinna daglegum rekstri, þar með talið greiðslum til starfsfólks og þjónustu við viðskiptavini.

„Við erum miður okkar að geta ekki sinnt íslenskum og erlendum viðskiptavinum okkar á meðan, þar á meðal útgerðum sem reiða sig á þjónustu okkar og varahluti,“ segir í tilkynningu Vélfags ehf.

Í tilkynningunni segir ennfremur að það sé rangt og villandi að Vélfag hafi ekki lagt fram nægileg gögn um eignaskipti félagsins og að félagið hafi ekki sýnt samstarfsvilja líkt og kom fram í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins í gær, 10. nóvember.

„Að halda því fram að þessi gögn hafi ekki borist eða að Vélfag hafi ekki sýnt samstarfsvilja er einfaldlega ósatt. Slíkar ásakanir eru árás á heiðarleika fyrirtækisins og trúverðugleika íslenskrar stjórnsýslu,“ segir í tilkynningu Vélfags sem má lesa í heild með því að smella hér.

„Niðurstaða ráðuneytisins um synjun á framlengingu undanþágu nú byggir á því að skilyrði undanþágunnar af hálfu ráðuneytisins hafi ekki verið uppfyllt af félaginu og forsvarsmönnum þess. Forsendur ákvörðunarinnar byggja á því að þrátt fyrir ítrekaðar framlengingar undanþágunnar, m.a. til að tryggja vandaða málsmeðferð, hafi ráðuneytinu ekki borist gögn eða upplýsingar um að Vélfag hafi gripið til lögmætra og varanlegra aðgerða til að losa félagið undan frystingu fjármuna félagsins, m.a. með því að skila Arion banka frekari gögnum til staðfestingar á því að sala Vélfags hafi verið raunveruleg og sönn. Þá liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um mögulegar aðgerðir félagsins til að losa um eignarhaldið. Engar upplýsingar liggi því fyrir um að breyting hafi orðið á stöðu Vélfags þrátt fyrir að ráðuneytið hafi veitt ítarlegar upplýsingar um markmið, framkvæmd og öryggisráðstöfun (eldvegg) hinnar tímabundnu undanþágu,“ segir í yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins sem má lesa í heild með því að smella hér.

COMMENTS