Í gluggum Glerárgötu 30 á Akureyri hafa verið settir upp límmiðar merktir Ísbúð Huppu. Ísbúðin var fyrst stofnuð á Selfossi árið 2013 en fyrirtækið rekur nú einnig verslanir á Borgarnesi og í Reykjanesbæ, auk sjö verslana á víð og dreif um höfuðbrgarsvæðið. Á límmiðunum í Glerárgötu stendur meðal annars „Hupp, hupp, húrra fyrir Akureyri!“ Límmiðarnir hafi vakið athygli bæjarbúa og þar á meðal blaðamanna Kaffisins. Kaffið sendi því fyrirspurn á Ísbúð Huppu um áætlaða opnun á Akureyri, sem verður fyrsta ísbúð Huppu á Norðurlandi.
Telma Finnsdóttir, Markaðs- og verkefnastjóri Ísbúðar Huppu, staðfesti í svari til Kaffisins að undirbúningur fyrir opnun á Akureyri sé í fullum gangi: „Ef allt gengur eftir stefnum við á að opna í júlí.“
Telma segir það lengi hafa verið draum að opna verslun á Akureyri: „Við höfum verið að horfa til Akureyrar í nokkur ár, svo þetta er stór og spennandi stund fyrir okkur.“
Telma er einn af stofnendum Ísbúðar Huppu. Gunnar Már Þráinsson, annar stofnandi hennar og framkvæmdastjóri, leiðir verkefnið á Akureyri. „[Hann] leiðir verkefnið af miklum krafti og er mjög spenntur að kynna Huppu betur fyrir Akureyringum,“ segir Telma.


COMMENTS