Stöðugur vöxtur í kaupum á notuðum snjalltækjum

Stöðugur vöxtur í kaupum á notuðum snjalltækjum

Stöðugur vöxtur hefur verið í móttöku notaðra raftækja síðastliðin ár þar sem tækjum er komið í hringrásarhagkerfi raftækja og þau ýmist endurunnin eða endurnýtt á nýjum mörkuðum. Meðal annars setti Elko Akureyri met í vor í viðskiptum með notuð raftæki. Á alþjóðlegum degi raftækjaúrgangs, sem er í dag 14. október, vekur ELKO sérstaka athygli á möguleikum fólks til að koma gömlum snjalltækjum í verð. Boðin er greiðsla fyrir snjallsíma, spjaldtölvur, snjallúr, fartölvur og leikjatölvur sem skilað er inn. Tækin eru verðmetin eftir ástandi þegar komið er með þau í verslunina, en hærra verð fæst greitt fyrir tæki í nothæfu ástandi.

Á árinu 2024 voru viðskiptavinum greiddar 20 milljónir króna fyrir gömul raftæki þegar 7.539 snjalltæki voru send í hringrásarhagkerfi raftækja í samstarfi við Foxway í Eistlandi. Aukning frá fyrra ári, þegar keypt voru 5.247 tæki, nam 43,7 prósentum. Þá var um að ræða ríflega þreföldun frá 2021 þegar tekið var við 2.419 tækjum. Þá er í verslunum ELKO jafnframt að finna endurvinnsluskápa þar sem tekið er við flestum minni raftækjum, rafhlöðum, snúrum og aukahlutum.

„Við hvetjum alla til að koma gömlum raftækjum í ábyrga endurvinnslu og ekki verra ef finnast tæki sem fá má greitt fyrir. Við erum afar stolt af þeim vexti sem við sjáum og viljum vera í fararbroddi þegar kemur að ábyrgum viðskiptaháttum og gagnsæi. Við erum spennt fyrir því að halda áfram að auka framboð á notuðum vörum og fræða almenning um sjálfbærar neysluvenjur þegar það kemur að raftækjum,“ segir Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri ELKO.

ELKO hefur jafnframt, fyrst raftækjaverslana á Íslandi tekið upp birtingu á áætluðu kolefnisspori allra vara í vefverslun sinni, en þar eru um að ræða mat á losun kolefnis í andrúmsloftið við framleiðslu vörunnar og til enda líftíma. Magnið er reiknað út frá þyngd vöru með umbúðum og kolefnisspori tiltekinna vöruflokka út frá svonefndum DEFRA-losunarstuðlum breska umhverfisráðuneytisins.

Fyrirtækið hefur haft forgöngu um gagnsæi og aukinni upplýsingagjöf um vörur sínar, svo sem með birtingu verðsögu allra hluta á vef sínum. Þar hefur nú líka bæst við að birtar eru upplýsingar um framleiðsluland allra hluta, aðgengi að varahlutum í árum og aðgengi að varahlutum þar sem það er gefið upp. Með því vill verslunin tryggja upplýst val neytenda og efnahagslegt gagnsæi í viðskiptum.

COMMENTS