Stórtón­leikar Kaleo í Vagla­skógi

Stórtón­leikar Kaleo í Vagla­skógi

Stórtónleikar hljómsveitarinnar Kaleo, Vor í Vaglaskógi, fara fram laugardaginn næstkomandi í Vaglaskógi. Um er að ræða fyrstu tónleika sveitarinnar á Íslandi síðan 2015.

7000 miðar seldust upp á augabragði þegar miðasala hófst og má því búast við miklum mannfjölda í Vaglaskógi um helgina.

Jakob Frímann Magnússon, einn aðalskipuleggjendi tónleikanna, ræddi tónleikana í Bítinu á Bylgjunni í gær. Hann segir að best væri að sem flestir færu á tónleikasvæðið með rútuferðum frá Glerártorgi sem tónleikahaldarar bjóða upp á. Hægt sé að panta sæti á sba.is.

Jakob segir að hann hafi staðið fyrir mörgum stórum viðburðum á sínum ferli, en hann hafi aldrei fengið jafn samhljóma jákvæð viðbrögð og nú. „Lögregla, slökkvilið, sjúkralið, hjálparsveita, heimamanna í Fnjóskadal, þetta er bara eins og einn samstilltur mótor sem vill láta viðburðinn heppnast upp á tíu.“

Í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra segir að ýmsum öryggismálum þurfi að huga að þegar slíkur mannfjöldi kemur saman, þar á meðal flug dróna eða annara flygilda. Samgöngustofa hefur því, að beiðni Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, bannað drónaflug yfir hátíðarsvæði viðburðarins Vor í Vaglaskógi. Drónabannið gildir frá kl 12:00 laugardaginn 26. júlí 2025 til kl. 08:00 sunnudaginn 27. júlí 2025. Allt drónaflug, annað en flug löggæsludróna, er bannað á svæðinu á þessu tímabili, nema með sérstöku leyfi Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.

Dagskrá hefst á laugardaginn klukkan 14, þegar plötusnúðurinn Doctor Victor þeytir skífum í klukkustund. Klukkan 15 stíga Kaleo-menn á svið og flytja órafmagnaða dagskrá í varðeldastíl. Hraðfréttamennirnir Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson verða sérstakir kynnar hátíðarinnar.

Restin af deginum verður svo sannkölluð tónlistarveisla. Sigrún Stella, Svavar Knútur, Soffía Björg, Bear the Ant, Jack Magnet, Júníus Meyvant, og Hjálmar koma fram áður en komið er að hápunkti kvöldsins þegar Kaleo stígur aftur á stokk klukkan níu.

Hægt er að lesa meira um dagskrána á vefsíðu tónlistarhátíðarinnar.

COMMENTS