Þessi grein er skrifuð af Guðmari Gísla Þrastarsyni, nemanda í Verkmenntaskólanum á Akureyri.
Nú fer strandveiðitímabilið senn að hefjast, en þann 5. maí geta strandveiðisjómenn losað landfestar og hafið veiðar. Um 900 umsóknir um strandveiðileyfi hafa borist Fiskistofu. Þröstur Jóhannsson skipstjóri á Hríseyjarferjunni er einn þeirra fjölmörgu sem iðka strandveiðar á sumrin.
Þröstur hefur stundað strandveiðar síðan þær hófust fyrst árið 2009, þó með einhverjum hléum. Hann hóf strandveiðar sínar á bátnum Sigga Gísla, en undanfarin sumur hefur hann siglt út á nýjum bát sem hann keypti vorið 2020. Að vísu nefndi Þröstur nýja bátinn í höfuðið á þeim gamla, svo hann siglir enn út á Sigga Gísla hvert sumar, samhliða starfi sínu sem skipstjóri Hríseyjarferjunnar.
Þröstur segir að síðustu ár hafi úthlutaðar veiðiheimildir ekki dugað út tímabilið. Hann segist þó vera fremur bjartsýnn um komandi tímabil: „Ég held að menn séu almennt ánægðir með það sem er verið að gera núna, þó það sé ekki búið að gefa út neitt magn, en miðað við hvernig stjórnvöld tala, þá á að bæta þetta eitthvað.” Aðspurður segist hann einnig bjartsýnn um að að strandveiðisjómenn muni fá þá 48 daga sem þeim var lofað samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar: „Já ég er það nú, svona miðað við hvernig hljóðið hefur verið og hversu ákveðin stjórnvöld virðast vera í að standa við þetta.”
Þresti líst vel á framtíð strandveiða og telur greinina standa trausta á meðan þau stjórnvöld sem eru nú við völd hyggjast styrkja strandveiðarnar: „Auðvitað veit maður aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér en ég leyfi mér að vera bjartsýnn á að greinin haldi áfram og aukið verði við þær frekar en hitt.”


COMMENTS