Strikið og kokkalandsliðið: Viðtal við Loga Helgason

Strikið og kokkalandsliðið: Viðtal við Loga Helgason

Logi Helgason hefur verið yfirkokkur á Strikinu síðan 2022. Nýverið gekk hann til liðs við kokkalandsliðið og mun því keppa fyrir hönd Íslands í ár ásamt fleiri hæfileikaríkum kokkum. Kaffið tók hann tali og fékk að fræðast um kokkalandsliðið, starfið á Strikinu og eldamennskuna.

Eldamennskan og landsliðið

Logi kláraði stúdentspróf frá Framhaldsskólanum á Laugum og að eigin sögn var hann kominn með nóg af því að vera í skóla. Hann fór þá á nemasamning í Hofi árið 2016 þar sem hann hóf ferilinn. Síðar útskrifast hann sem matreiðslumaður frá VMA árið 2020. Nú hefur hann starfað sem yfirkokkur á Strikinu síðan 2022 og hefur í nógu að snúast sem landsliðskokkur, en æfingar eru annan hvern sunnudag og mánudag fyrir sunnan.

Logi keppir nú með landsliðinu og telur að það sem skipti mestu máli sé reynsla úr matreiðslukeppnum, kunnátta, vinnustaðurinn sem viðkomandi starfar á og viljinn til að leggja á sig vinnu, læra eitthvað nýtt og hafa rétta hugarfarið.

En miðað við tímann og vinnuna sem þetta tekur, er ekki erfitt að vera yfirkokkur á Strikinu á sama tíma?

„Maður þarf að vera með gott teymi með sér í eldhúsinu svo þetta gangi og ég er svo sannarlega með stjörnuteymi hér,“ segir Logi og bætir við: „Það sem felst í því að vera í landsliðinu er að vera fyrirmynd bæði innan og utan eldhúss, vera framsækinn, fara út fyrir þægindarammann, takast á við nýjar áskoranir, halda áfram að læra og prófa eitthvað nýtt.“

Aðspurður hvaðan hann fái innblástur fyrir réttina sína segir hann að hann fái hann frá öllu mögulegu, hvort sem það eru auglýsingar, uppástungur frá öðrum eða úr eigin huga. Það sem heillar hann mest núna er skandinavísk og asísk matargerð ásamt sætabrauðsgerð (e. pastry).

En þegar kemur að reynslunni segir Logi það erfitt að benda á eitthvað eitt sem hann telji mikilvægast:

„Þegar maður ákveður að læra kokkinn er mikilvægt að finna sér fyrirmynd. Hugsa: Hvers konar kokkur vil ég verða? Það er enginn fullkominn, svo maður þarf að geta aðskilið það góða frá því slæma hjá öðrum kokkum, taka bara það jákvæða og læra af því. Svo þarf maður alltaf að eiga sér markmið og vinna markvisst að þeim. Ef maður klárar eitt markmið, þá finnur maður sér nýtt.“

Kokkar eiga sér líf utan vinnunnar og þurfa oft að elda heima hjá sér, og Logi segist alltaf sakna aðeins heimilismatarins:

„Ég er mjög hrifinn af plokkfiski, grjónagraut og soðinni ýsu, en svo elda ég mikið af carbonara, tikka masala og bleikju með hollandaise.“

Nýtt á döfinni

Gugga var nýlega ráðin sem nýr veitingastjóri á Strikinu, líkt og Kaffið fjallaði um, Logi segir að miklar breytingar fylgi því ekki, þó markmiðið sé alltaf að bæta þjónustuna. Gugga hefur unnið með þjónustuteyminu og lærði framleiðslumanninn á Strikinu, svo hún þekkir staðinn vel og veit hvernig hann gengur fyrir sig.

Framundan á Strikinu er nýr hádegisseðill með rétt dagsins. Þá verður boðið upp á sushi- og steikahlaðborð á föstudögum. Matreiðslumeistarinn Hallgrímur Sigurðsson hefur séð um þá vinnu.

Sömuleiðis er nýr kvöldseðill í vinnslu sem Logi hefur unnið hörðum höndum að með Elmari Inga, vaktstjóra á Strikinu. Von er á fullt af nýjum spennandi réttum með skandinavískum og asískum áhrifum í smáréttum og aðalréttum. Þá verða óhefðbundnir eftirréttir í boði, t.d. tonka crème brûlée, passion-mús með hnetusmjörsfyllingu, og jógúrt-súkkulaðimús með hindberjagranítu og jarðaberjate-seyði.

„Markmið okkar á Strikinu er að gesturinn komi til okkar fyrir upplifun – bæði í mat og drykk – smakki eitthvað nýtt og spennandi og njóti besta útsýni bæjarins. Svo erum við búin að opna svalirnar hjá okkur og það er tilvalið að koma í sólina og fá sér kokteila með smáréttum,“ segir Logi að lokum.

COMMENTS