Nú hefur fyrsti fundur stýrihóps sem hefur það hlutverk að sjá um innleiðingu og eftirfylgni á skipulagsbreytingum á starfsemi forvarna- og frístundamála verið haldinn. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.
Stýrihópinn skipa Heimir Örn Árnason fulltrúi meirihluta, Sunna Hlín Jóhannesdóttir fulltrúi minnihluta, Gísli Rúnar Gylfason tómstunda- og félagsmálafræðingur, Jakob Frímann Þorsteinsson fulltrúi frá námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði, Kristín Jóhannesdóttir sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs og Anna Marit Níelsdóttir þjónustustjóri velferðarsviðs. Starfsmenn hópsins eru Ida Eyland Jensdóttir forstöðumaður skrifstofu fræðslu- og lýðheilsusviðs og Rannveig Sigurðardóttir verkefnastjóri grunnskóla á fræðslu- og lýðheilsusviði. Þær boða til funda og undirbúa dagskrá funda.
„Til að tryggja rödd barna í sveitarfélaginu í kjölfar breytinganna verður vinnu stýrihópsins reglulega vísað til umsagnar í ungmennaráði og jafnframt verður leitað eftir sjónarmiðum fulltrúa nemendaráða og/eða réttindaráða grunnskólanna,“ segir í tilkynningu Akureyrar.
Gert er ráð fyrir átta fundum í vetur. Á þessum fyrsta fundi var farið yfir hlutverk hópsins og helstu umfjöllunarefni fundanna framundan. Næsti fundur stýrihópsins verður haldinn 25. september og verða hagaðilar upplýstir reglulega um vinnu hópsins.


COMMENTS