Súlur björgunarsveit stofnar unglingadeildina Lamba

Súlur björgunarsveit stofnar unglingadeildina Lamba

Í vetur verður í fyrsta sinn boðið upp á unglingastarf Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Akureyri. Súlur björgunarsveit stofnar unglingadeildina Lamba og boðar til kynningarfundar fyrir unglinga og foreldra þeirra í dag, þriðjudaginn 16. september klukkan 19:30. Hér að neðan má lesa tilkynningu frá björgunarsveitinni.

Súlur björgunarsveit á Akureyri kynnir með stolti nýja unglingadeild, Lamba, sem tekur til starfa haustið 2025. Af þessu tilefni verður haldinn kynningarfundur þriðjudaginn 16. september kl. 19:30 þar sem bæði unglingar og foreldrar þeirra eru hvattir til að mæta og kynna sér starfið.

Unglingadeildin Lambi er ætluð þeim sem verða 14 ára á árinu 2025 og býður upp á einstakt tækifæri til að kynnast starfi björgunarsveita á öruggan, skemmtilegan og uppbyggilegan hátt.

Í starfinu gefst krökkunum kostur á að læra fjölbreytta og nytsamlega færni, meðal annars:

  • rötun og kortalestur
  • ferðamennsku og fjallamennsku
  • sig, leitartækni og fyrstu hjálp

Þátttakendur fá einnig að taka þátt í æfingum og verkefnum með björgunarsveitinni sjálfri og þannig upplifa starfið að innan. Mikil áhersla er lögð á samstarf við aðrar unglingadeildir og reglulega eru haldin landshluta- og landsmót þar sem tækifæri gefst til að eignast vini með sama áhugamál um allt land.

Unglingadeildir Landsbjargar starfa samkvæmt skýrum reglum fyrir 13–18 ára, með áherslu á öryggi, vináttu og persónulegan þroska. Starfið er ekki aðeins ævintýri og útivist heldur einnig vettvangur til að byggja upp traust, samvinnu og sjálfstraust. Ungmennin fá jafnframt rödd í starfinu með þátttöku í ungmennaráði Landsbjargar.

Öryggi er ávallt í forgrunni. Umsjónarmenn unglingadeildarinnar eru fullorðnir einstaklingar með reynslu, bundnir trúnaði og þurfa að framvísa sakavottorði. Reglugerð 1/2020 hjá Landsbjörg tryggir að allt starf með börnum og ungmennum sé ábyrgt og faglegt. Starfið byggir auk þess á siðareglum Landsbjargar sem leggja áherslu á virðingu, fagmennsku og góða samskipti.

Unglingadeildin Lambi starfar í samræmi við leiðarljós Æskulýðsvettvangsins sem styður uppbyggilegt æskulýðsstarf með áherslu á öryggi, jákvætt uppeldi og fræðslu.

Með þátttöku í starfi Lamba fá unglingar einstakt tækifæri til að læra gagnlegar og spennandi færni, eignast nýja vini og taka þátt í starfi sem byggir á ábyrgð, hjálpsemi og samstöðu.

Hvar og hvenær?

  • Kynningarfundur: Þriðjudagur 16. september kl. 19:30
  • Staður: Hjalteyrargata 12, Akureyri

Allir sem hafa áhuga á starfinu eru hvattir til að mæta.

COMMENTS