Sumaropnun í Hlíðarfjalli – Þriðja besta sumar til þessa

Sumaropnun í Hlíðarfjalli – Þriðja besta sumar til þessa

Áttunda árið með sumaropnun í Hlíðarfjalli hefur gengið afar vel. Gestir hafa getað nýtt sér Fjarkann, neðri stólalyftuna, til að komast upp fjallið og njóta þess að hjóla eða ganga um svæðið. Breyttur opnunartími í sumar hefur mælst vel fyrir, en opið hefur verið í 32 daga og yfir 1500 gestir sótt fjallið heim – meira en tvöföldun frá fyrra ári og þriðja besta sumarið frá upphafi. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar, þar segir einnig:

Samhliða opnuninni hefur verið unnið ötullega að fjölbreyttum verkefnum í fjallinu. Ný snjógirðingakerfi hafa risið, lyftur og tæki fengið viðhald og bygging nýs verkstæðis heldur áfram. Í hjólagarðinum hafa verið kynntar nýjungar og eldri leiðir endurbættar. Undirbúningur fyrir vetrartímann er þegar hafinn og framundan eru áframhaldandi framkvæmdir, meðal annars við snjóframleiðslukerfi og lýsingu.

COMMENTS