Fjölskylduhátíðin Ein með öllu fór fram á Akureyri um Verslunarmannahelgina og eru skipuleggjendur og gestir í skýjunum með hvernig hátíðin fór fram. Davíð Rúnar Gunnarsson, viðburðastjóri Einnar með öllu, telur að nýtt aðsóknarmet hafi verið sett á lokatónleikum hátíðarinnar í ár.
Davíð ræddi við fréttastofu RÚV þar sem hann sagði að skipuleggjendur haldi að um nýtt met sé að ræða. Aldrei er selt inn á tónleikana þannig tölur eru ekki til staðar. Samkvæmt umfjöllun RÚV metur gervigreind svo að um 20 þúsund manns hafi sótt tónleikana.
„En ég held að það hafi allir tekið eftir því að þetta var það stærsta sem hefur verið gert hérna, held ég,“ segir Davíð í spjalli við RÚV.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, tekur undir með Davíð í spjalli við mbl.is þar sem hún segir að metaðsókn hafi verið í bænum alla helgina, að minnsta kosti síðan hún flutti til bæjarins fyrir sjö árum. Hún segir að allt hafi gengið eins og í sögu.
„Mér fannst tónleikarnir takast eins vel og hægt var að hugsa sér. Það skapaðist brekkustemming á vellinum,“ segir bæjarstjórinn í samtali við mbl.is.
Í ár fór hátíðin fram á Akureyrarvelli og telur Halldór Kristinn Harðarson, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, að það hafi verið góð hugmynd.
„Síðustu ár höfum við setið upp á skrifstofu í Glerárgötunni og horft yfir Akureyrarvöll, ég tuðaði og tuðaði í Dabba að nú þyrftum við þennan völl, hann mætti bara ekki standa þarna, þetta væri svæðið sem Akureyri þyrfti undir samkomur og hugmyndirnar margar sem gætu nýst þarna, það tókst á endanum og við fengum völlinn loksins. Þetta svæði sannaði sig sem eitt flottasta afþreyingarsvæði bæjarins sem verður að halda í grasið græna í framtíðinni. Mér heyrist allir vera sammála því eftir helgina,“ skrifarði Halldór á Facebook síðu sinni.
Mynd: Teymið á bakvið Eina með öllu