Þórduna styrkti Minningarsjóð Bryndísar KlöruMynd: Vma.is

Þórduna styrkti Minningarsjóð Bryndísar Klöru

Nemendafélagið Þórduna í VMA hefur á haustönn selt VMA-peysur. Sérstök áhersla var lögð á sölu bleiku VMA-peysunnar þar se allur ágóði af sölu þeirra rann til Minningarsjóðs Bryndísar Klöru.

Í tilkynningu á vef VMA segir að sala á peysunum hafi gengið vel og ekki síst á bleiku peysunum sem hafa runnið út.

Salan á bleiku peysunum skilaði 165.500 kr. sem Þórduna lagði í síðustu viku inn á reikning Minningarsjóðs Bryndísar Klöru. Rétt er að nefna að enn til nokkrar bleikar VMA-peysur á lager hjá Þórdunu ef fleiri vilja leggja Minningarsjóðnum lið. Hér má sjá frekari upplýsingar.

Hulda Þórey Halldórsdóttir formaður Þórdunu segir á heimasíðu skólans að félagið sé stolt af því að leggja sitt af mörkum í stuðningi við þennan mikilvæga sjóð sem vinni ötullega að fræðslu og vitundarvakningu varðandi ofbeldi barna og unglinga.

Minningarsjóður Bryndísar Klöru var stofnaður af fjölskyldu og vinum Bryndísar Klöru Birgisdóttur sem lést 17 ára gömul eftir hnífaárás á Menningarnótt í Reykjavík í ágúst 2024. Markmið sjóðsins er að berjast gegn ofbeldi meðal barna og ungmenna, styrkja verkefni sem stuðla að öruggu og kærleiksríku samfélagi og veita stuðning til barna sem hafa orðið fyrir eða eru í hættu á að verða fyrir ofbeldi.

Minningarsjóðurinn veitir styrki árlega til verkefna sem vinna að því að skapa öruggara samfélag fyrir börn og ungmenni. Úthlutun styrkja fer fram á afmælisdegi Bryndísar Klöru, 2. febrúar ár hvert.

Allar nánari upplýsingar um sjóðinn, umsóknarferlið og styrkúthlutanir má finna á www.mbk.is

COMMENTS