„Þörfin fyrir þetta nám hefur verið aðkallandi á landsbyggðinni“

„Þörfin fyrir þetta nám hefur verið aðkallandi á landsbyggðinni“

Nú í haust var í fyrsta skipti boðið upp á diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun í Háskólanum á Akureyri og er þetta jafnframt í fyrsta sinn sem slíkt nám er í boði utan höfuðborgarsvæðisins. Í dag stunda fjórir stúdentar námið.

Námið er afrakstur samstarfsverkefnis Háskólans á Akureyri, Háskólans Íslands og Listaháskóla Íslands um inngildandi háskólanám. Dr. Sara Stefánsdóttir, lektor við Iðjuþjálfunarfræðideild, leiddi verkefnið fyrir hönd HA en markmið þess er að efla menntun, sjálfstæði og atvinnuþátttöku fólks með þroskahömlun og stuðla að samfélagi þar sem öll fá tækifæri til að halda áfram að læra og taka þátt.

Sara ræddi við heimasíðu Háskólans á Akureyri um námið í dag. Hún segir að Háskólinn á Akureyri vilji skapa námsumhverfi sem þar sem fjölbreyttir nemendahópar séu velkomnir. Það sé mikilvægt skref í átt að jafnrétti og raunverulegu aðgengi að menntun.

„Rannsóknir sýna okkur að fötluðu fólki hefur ekki fjölgað í háskólum í sama mæli og öðrum hópum. Þörfin fyrir þetta nám hefur verið aðkallandi á landsbyggðinni og skortur á inngildandi námsleiðum takmarkar möguleika þeirra á vinnumarkaði,“ segir Sara í samtali við unak.is og bætir við að staðan sé enn verri sé horft til þess hóps sem er með þroskahömlun.

Þær Karen Alda Mikaelsdóttir og Rósa Ösp Traustadóttir eru stúdentar á nýju námslínunni. Þær segjast vona að námið hjálpi þeim að komast nær framtíðarmarkmiðum sínum í samtali við vef HA.

Nánar er rætt við þær í ítarlegri umfjöllun á vef Háskólans á Akureyri sem má finna með því að smella hér.

COMMENTS