Þórsarar á toppnum fyrir lokaleikinn – Spennandi lokaumferð framundan

Þórsarar á toppnum fyrir lokaleikinn – Spennandi lokaumferð framundan

Knattspyrnulið Þórs er á toppi Lengjudeildarinnar fyrir lokaleik tímabilsins eftir baráttusigur á Fjölnismönnum í Boganum á Akureyri í gær. Leiknum lauk með 2-1 sigri Þórsara.

Clement Bayiha kom Þórsurum yfir í leiknum áður en Fjölnismenn jöfnuðu rétt fyrir leikhlé. Staðan var 1-1 alveg þar til að Sigfús Fannar Gunnarsson tryggði Þórsurum sigur með marki úr vítaspyrnu á 84. mínútu leiksins.

Með sigrinum færðu Þórsarar sig upp fyrir Þrótt og Njarðvík í fyrsta sæti deildarinnar en bæði liðin töpuðu sínum leikjum í gær. Það er alvöru lokaumferð framundan og mikil spenna í deildinni en Þórsarar eru með 42 stig, Þróttarar 41 stig og Njarðvíkingar 40 stig fyrir lokaumferðina.

Liðið sem vinnur deildina fer beint upp í Bestu deildina, efstu deild. Þórsarar munu leika hreinan úrslitaleik í lokaumferðinni en liðið ferðast til Reykjavíkur og mætir Þrótti sem er í öðru sæti. Sigurliðið í leiknum mun leika í Bestu deildinni á næsta tímabili. Ef leikurinn endar með jafntefli þá getur Njarðvík stolið toppsætinu með sigri á Grindavík. Ef Njarðvík vinnur ekki þá nægir Þór jafntefli til að tryggja sér efsta sætið.

Lokaumferðin spilast næstkomandi laugardag klukkan 14.00. Leikur Þórs og Þróttar fer fram á Avis-vellinum í Laugardag. Þórsarar munu bjóða upp á fría rútuferð fyrir áhugasöm.

Hægt er að skrá sig hér. Athugið – 16 ára aldurstakmark er í rútuna nema í fylgd með foreldri.

COMMENTS