Þórsarar mættu Þrótti í lokaumferð Lengjudeildar karla í fótbolta í dag. Þegar flautað var til leiksloka var staðan 2-1 fyrir Þór og hafa þeir þar með tryggt sér sæti í Bestu deildinni 2026, í fyrsta sinn síðan 2014!
Sigfús Fannar Gunnarsson kom Þór yfir með marki á 25. mínútu fyrri hálfleiks eftir snyrtilega stoðsendingu frá Ými Má Geirssyni. Í seinni hálfleik breikkaði Ingimar Arnar Kristjánsson bilið og plantaði öðru marki fyrir Þór á 71. mínútu. Viktor Andri Hafþórsson færði smá spennu í leikinn undir lokin og skoraði mark fyrir Þrótt á 94. mínútu, í uppbótartíma. Stoðsendingin kom frá Kolbeini Nóa Guðbergssyni. Markið dugði þó ekki til og flautað var til leiksloka eftir 98 mínútur, staðan 2-1 fyrir Þór.
Þór var efsta lið í deildinni fyrir leikinn en aðeins einu stigi á undan Þrótti. Þórsarar þurftu því á þessum sigri að halda til þess að komast áfram í Bestu deildina. Jafntefli hefði ekki dugað. Sigurinn er einnig ágætis hefnd gegn Þrótturum, sem sigruðu Þór 2-1 fyrr í sumar.
Ítarlegri umfjöllun, textalýsingu og myndir frá leiknum er að finna á fotbolti.net.


COMMENTS