Þrír læknar hafa sagt upp störfum á Sjúkrahúsinu á Akureyri vegna álags. Þetta kemur fram í umfjöllun á Vísi.is þar sem segir að erfitt ástand hafi skapast á Sjúkrahúsinu vegna læknaskorts og að enginn lyflæknir sé á vakt eftir 22. desember.
Steinunn Þórðardóttir formaður Læknafélagsins segir heimild vanta til að hægt sé að tryggja viðunandi mönnun á sjúkrahúsinu. Læknafélagið fór norður í gær og fundaði með læknum og yfirstjórn sjúkrahússins vegna málsins.
„Við höfum verið að fylgjast lengi með ástandinu á Akureyri sem hefur verið erfitt, meðal annars með mönnun lækna. Þessi uppsögn ferliverka sem átti sér stað fyrr í haust, sem hefur verið ttöluvert í fjölmiðlum hefur ekki bætt úr skák,“ segir Steinunn í samtali við fréttastofu Vísis.
„Þetta er öðruvísi þjónusta, það þarf að fjármagna hana öðruvísi og ég held að þetta kalli á gagngera endurskoðun á því hvaða fjárveitingar fara til sjúkrahússins og hvernig þau hafa heimildir til að manna. Sem er greinilega ekki nægjanlegt í dag.“
Hún segir að það þurfi að veita SAk heimild til að fjölga læknum og bendir á að sjúkrahúsið þjónusti mörg þúsund manns og sé varasjúkrahús allra landsmanna.
Nánar er rætt við Steinunni í ítarlegri umfjöllun Vísis sem má finna með því að smella hér.


COMMENTS