Kaffið.is stendur árlega fyrir vali á manneskju ársins frá Akureyri og nágrenni. Í ár gátu lesendur tilnefnt manneskjur og bárust fjölmargar tilnefningar til okkar.
Hér að neðan má lesa um þá fimmtán einstaklinga sem fengu flestar tilnefningar og lesendur geta svo neðst í greininni kosið á milli þeirra. Úrslit verða tilkynnt hér á Kaffið.is á gamlársdag.
Hörður Óskarsson
Hörður Óskarsson selur á hverju ári mottur og slaufur til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis, KAON. Í mars selur Hörður mottur og í október slaufur. Í ár skilaði sala hans 826.000 krónum fyrir Krabbameinsfélagið og frá árinu 2018 hefur Hörður styrkt Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis um 3.247.000 krónur.
Gerður Ósk Hjaltadóttir
Gerður Ósk hefur á árinu verið áberandi í baráttu sinni fyrir ungmenni sem finnst þau ekki tilheyra í samfélaginu. Hún missti elsta son sinn á árinu og stofnaði þróunarverkefnið Hjaltastaði til heiðurs honum. Úrræði fyrir fólk 18 ára og eldri, sem stendur höllum fæti og hefur ekki náð að fóta sig í lífinu.
Í tilnefningu segir: „Gerður er sönn hetja og hefur látið gott af sér leiða í kjölfar óhugsanlegs áfalls.“
Skúli Bragi Geirdal
Skúli Bragi hefur barist fyrir öryggi barna og ungmenna á stafrænum vettvangi bæði í hlutverki sínu sem sviðsstjóri hjá Netvís – miðstöð um félagslegt netöryggi og miðlalæsi og á Alþingi sem varaþingmaður. Skúli var á árinu einnig kjörinn varaformaður Ungmennafélags Íslands.
Í tilnefningu segir: „Menn eins og Skúli eru gulls í gildi þegar það kemur að því að fræða samfélagið um stafrænar ógnir og áhrif á ungmenni.“
Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir
Sesselja Barðdal er tilnefnd fyrir hlutverk sitt í því að vekja athygli á Einstökum börnum og framtakssemi fyrir nýsköpun á Norðurlandi í starfi sínu fyrir DriftEA.
Sigrún Steinarsdóttir
Sigrún ákvað að halda úti Matargjöfum aftur í ár og aldrei hefur verið meiri þörf á. Í samstarfi við Norðurhjálp fengu hundruðir fjölskyldna aðstoð í ár líkt og undanfarin ár.
Í tilnefningu segir: „Sigrún og sjálfboðaliðar Matargjafa standa sig frábærlega að aðstoða fólk sem þarf á því að halda. Sigrún er að aðstoða fólk 12. jólin í röð, geri aðrir betur.“
Finnur Aðalbjörnsson og Sigríður María Hammer
Hjónin Finnur Aðalbjörsson og Sigríður María Hammer hafa auðgað mannlífið í Eyjafirði og ýtt undir ferðaþjónustu á svæðinu sem eigendur Skógarbaðanna. Þau hugsa stórt og stefna á frekari uppbyggingu á svæðinu.
Í tilnefningu segir: „Þessi tvö hafa gert heilmikið fyrir svæðið, skapa atvinnutækifæri og skila gríðarlegum tekju til sveitarfélaganna á svæðinu.“
Kristín Bjarnadóttir
Kristín Sólveig Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur stofnaði félagið Vonarbrú sem aðstoðar barnafjölskyldur á Gaza fjárhagslega og andlega. Á www.vonarbru.is má lesa um félagið og starfsemi. Auk þess vinnur hún hjá heimahlynningu á Akureyri.
Í tilnefningu segir: „Kristín er hetja sem öll geta litið upp til. Sinnir óeigingjörnu og mikilvægu starfi sem er til fyrirmyndar. Við þurfum fleiri eins og hana í dag.“
Teymið í Hjálp 48
Hjálp48 opnaði á Akureyri í ár á vegum Sorgarmiðstöðvarinnar. Markmið verkefnisins er að grípa aðstandendur eftir skyndilegan ástvinamissi utan sjúkrahússtofnana og veita þeim viðeigandi stuðning og eftirfylgni.
Í tilnefningu segir: „Þetta er svo ótrúlega þarft úrræði og við megum ekki missa það héðan en þetta er ennþá skilgreint tilraunaverkefni og var ákveðið að byrja á Akureyri og nágrenni. Það kom svo sannarlega í ljós að á þeim var að halda þar sem þau fengu útkall strax á fyrsta starfsdegi sínum. Þau gripu fast um fjölskylduna og eru enn að hjálpa.“
Hallgrímur Mar Bergmann Steingrímsson
Hallgrímur er tilnefndur fyrir framlag sitt til knattspyrnu á Akureyri. Hann er meðal annars orðinn bæði leikjahæsti og markahæsti leikmaður í sögu Knattspyrnufélags Akureyrar og er frábær fyrirmynd fyrir yngri kynslóðir.
Í tilnefningu segir: „Hann á skilið meira lof fyrir árangur sinn bæði innan vallar og utan vallar þar sem hann er jafnvel ennþá betri. Verður bara betri með árunum, 35 ára í ár.“
Jóhanna Sólrún Norðfjörð og Haraldur Pálsson
Jóhanna og Haraldur eru tilnefnd fyrir óeigingjarnt og mikilvægt starf sitt í Búrkína Fasó. Þau bera mikla ábyrgð á rekstri ABC-skólans í Bobo-Dioulasso, þar sem um 1300 börn stunda nám frá leikskóla upp á framhaldsskólastig. Þau vinna í nánu samstarfi við heimamenn og leggja áherslu á að byggja upp sjálfbært starf með miðlun þekkingar. Auk skólastarfsins hafa þau staðið að verkefnum sem bæta lífsskilyrði á svæðinu.
Í tilnefningu segir: „Að mínu mati eiga Jóhanna og Haddi svo sannarlega skilið að vera tilnefnd sem manneskjur ársins. Starf þeirra hefur breytt lífum, skapað tækifæri og skilað varanlegum áhrifum þar sem þörfin er mest.“
Óskar Þór Halldórsson
Óskar er tilnefndur fyrir það þrekvirki að skrifa ítarlega um sögu Akureyrarveikinnar í bókinni Akureyrarveikin sem kom út á árinu.
Í tilnefningu segir: „Það er þarft fyrir sögu bæjarins að þessi bók var skrifuð og Óskar á skilið að vera manneskja ársins fyrir að rannsaka málið ítarlega og gefa út þessa ótrúlega mikilvægu bók um þennan dularfulla sjúkdóm.“
Eiki Helgason
Eiki er tilnefndur fyrir starf sitt fyrir jaðaríþróttir á Akureyri. Eiki rekur Braggaparkið á Akureyri þar sem alltaf er nóg um að vera.
Í tilnefningu segir: „Eiki stendur þétt við bakið á bōrnum sem stunda jaðaríþróttir á Akureyri. Hann gafst ekki upp á að láta aðstöðu þessara krakka verða að veruleika þrátt fyrir að fá ekki stuðninginn sem hann þurfti.“
Aðstandendur Norðurhjálpar
Teymið á bakvið Norðurhjálp heldur áfram að hjálpa þeim sem þurfa á að halda á svæðinu og finna nýjar leiðir til þess að hjálpa sem flestum.
Í tilnefningu segir: „Yndislegar konur sem gefa endalaust af sér. Jákvæð og góð orka og þær hafa hjálpað mörgum á árinu.“
Friðbjörn Sigurðsson
Friðbjörn Sigurðsson er læknir og aðalhvatamaður þess að Akureyrarklínikin varð til. Friðbjörn hefur verið óþreytandi að kynna sjúkdómana ME og long Covid og það sem sjúklingar með þessa sjúkdóma eru að ganga í gegnum.
Í tilnefningu segir: „Hann stendur með sjúklingunum sínum og er að öðrum ólöstuðum sá sem hefur hjálpað þeim mest með því að upplýsa ekki bara almenning heldur líka heilbrigðisstarfsfólk um þessa sjúkdóma. Hann er frábær fagmaður og frábær manneskja.“
Drífa Helgadóttir
Drífa er tilnefnd fyrir óeigingjarnt starf starf sitt þágu þeirra sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu sem sjálboðaliði Lautarinnar á Akureyri síðastliðin 20 ár.
Í tilnefningu segir: „Hún upp á sitt einsdæmi hefur fengið fyrirtæki í lið með sér sem gefa til dæmis brauð og álegg til þess að hægt sé að hafa eitthvað að maula. Það er henni að þakka að opið er alla laugardaga og hún tekur vel á móti öllum og fær öllum til þess að finnast þeir vera velkomnir og mætir öllum þar sem þeir eru.“
Kjóstu hér:


COMMENTS