Um 550 gestir á Vestnorden ferðakaupstefnunni

Um 550 gestir á Vestnorden ferðakaupstefnunni

Um 550 gestir frá um 30 löndum komu saman á ferðakaupstefnunni Vestnorden, sem fram fór á Akureyri og lauk í gærkvöldi. Um er að ræða stærsta viðburð ferðaþjónustunnar á Íslandi. Fjallað er um viðburðinn á vef Akureyrarbæjar í dag.

Á ráðstefnunni var megináhersla lögð á ábyrga ferðahegðun og sjálfbæra þróun sem endurspeglar stefnu íslenskrar ferðaþjónustu. 

„Í ljós kom að mikil bjartsýni ríkir í ferðaþjónustunni og mikill áhugi er á Akureyri og Norðurlandi í heild. Mikil uppbygging á sér nú stað á svæðinu, sérstaklega í gistirýmum.Á næstu mánuðum er gert ráð fyrir að gistirýmum fjölgi um tæp 300, og árið 2027 bætast við rúmlega 120 herbergi til viðbótar með tilkomu Forest Lagoon hótelsins,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

Vestnorden er samstarfsverkefni Íslands, Færeyja og Grænlands og fer fram undir merkjum NATA – North Atlantic Tourism Association. Síðast var kaupstefnan haldin á Akureyri árið 2018. Akureyrarbær tók þátt í kaupstefnunni og studdi myndarlega við framkvæmd hennar, nú sem áður.

Á vefsíðu Íslandsstofu eru fleiri myndir frá ráðstefnunni.

COMMENTS