Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna lumar á fimm athyglisverðum loftmyndum af Kassos Field í Eyjafirði. Myndirnar er teknar haustið 1942 þegar flugmenn bandaríska flughersins á Melunum máttu hafa sig alla við að fylgjast með sívaxandi umferð þýskra flugvéla í firðinum. Myndirnar sýna braggana og flugbrautina á Melgerðismelum og eru í góðum gæðum svo greina má ýmis smáatriði á jörðu niðri. Grenndargralið greinir frá.
Á vef Grenndargralsins segir enn fremur að myndirnar séu teknar laugardaginn 5. september. Þá voru ekki liðnir nema ellefu dagar frá mannskæðu flugslysi í Rauðhúsahólum ofan Melgerðismela. John G. Kassos, flugmaður í ameríska flughernum hóf sig til lofts þann 25. ágúst en kom aldrei til baka. Vinstri vængur vélarinnar sem hann flaug rakst í hól með þeim afleiðingum að eldur kviknaði í vélinni með tilheyrandi sprengingum en flugvélarskrokkurinn rann áfram eftir jörðinni þar til hann staðnæmdist við annan hól.
Myndirnar voru bornar saman við nýjar loftmyndir af svæðinu til að freista þess að staðsetja brotlendingarstaðinn á einni af myndunum frá 1942 með nákvæmum hætti. Það tókst og þegar rannsakendur rýndu í myndina og stækkuðu hana urðu þeir meira en lítið hissa þegar ummerki eftir slysið komu í ljós. Myndir og meira um málið má finna á grenndargral.is.


COMMENTS