Landverðir á norðurhálendi Vatnajökulsþjóðgarðs komu fyrr í vikunni að umfangsmiklum utanvegaakstri í Dyngjufjalladal. Þetta segir í tilkyningu frá gestastofu þjóðgarðsins á Facebook. Í tilkynningunni segir að óafturkræfar skemmdir hafi verið unnar á viðkvæmri náttúru svæðisins:
Mikill hluti tjónsins varð á malarkápu, en einnig á gróðurþekju og sandi. Slík för mynda farveg fyrir aukið vatns- og vindrof, sem ýtir undir jarðvegsrof og jafnframt geta gróðurskemmdir tekið mörg ár að jafna sig, sér í lagi á hálendissvæðum, þar sem gróður vex hægt. Þar að auki valda förin ekki bara skemmdum á undirlagi og gróðri heldur raska þau einnig ásýnd landsins og veita slæmt fordæmi fyrir frekari utanvegaakstri.
Unnið er að lagfæringum á raskinu sem þarna hefur orðið, en í tilkynningu segir að vegna viðkvæmrar jarðvegsgerðar á svæðinu sé líklegt að ummerkin verði sýnileg um langa hríð.





COMMENTS