Knattspyrnumaðurinn Valdimar Logi Sævarsson hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við knattspyrnudeild KA á Akureyri. Valdimar er nú samningsbundinn félaginu út sumarið 2028. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef KA.
„Eru þetta afar jákvæðar fréttir en Valdi er gríðarlega efnilegur og spennandi leikmaður sem á sannarlega framtíðina fyrir sér,“ segir á vef KA.
Valdi er 19 ára gamall, afar teknískur og spennandi miðjumaður sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína á vellinum. Hann hefur þrátt fyrir ungan aldur leikið 31 leik fyrir meistaraflokkslið KA í deild-, bikar- og evrópukeppni. Hann lék sinn fyrsta leik sumarið 2022 þá 16 ára gamall er KA sló út Reyni Sandgerði í Mjólkurbikarnum og hefur í kjölfarið nýtt tækifæri sín með liðinu vel. Valdi hefur einnig verið fastamaður í yngrilandsliðshópum Íslands og hefur leikið fjóra leiki fyrir Íslands hönd.


COMMENTS