Vel mætt á ráðstefnu um áhættuhegðun barna og ungmenna

Vel mætt á ráðstefnu um áhættuhegðun barna og ungmenna

Vel var mætt á ráðstefnu um áhættuhegðun barna og ungmenna sem fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar hélt í Háskólanum á Akureyri síðastliðinn fimmtudag. Ráðstefnan var liður í Erasmus+ samstarfsverkefni Félagsmiðstöðvanna á Akureyri. Fjallað er um ráðstefnuna á vef Akureyrarbæjar.

Á fundinum sögðu Linda Björk Pálsdóttir og Arndís Ósk Arnarsdóttir frá verkefninu, auk þess sem fulltrúar frá Berginu, Flotanum – vettvangsstarfi í Reykjavík, Barnaheillum og Samfélagslögreglunni fluttu erindi. Þá kynnti Halldóra Kristín Hauksdóttir Fjölskylduþjónustu Norðurlands eystra, verkefni sem miðar að því að efla farsæld barna og fjölskyldna með snemmtækri, samþættri og fjölskyldumiðaðri þjónustu.

„Markmið er að efla samvinnu hagsmunaaðila sem starfa með börnum og ungmennum, með það að leiðarljósi að bæta þjónustu og stuðning við þau,“ segir á vef bæjarins.

„Með því að vinna saman að farsæld barna breytum við ekki einungis líðan þeirra í dag, heldur mótum við betra samfélag til frambúðar,“ sagði Linda Björk.

Að loknum erindum fóru fram líflegar pallborðsumræður.

COMMENTS