Barnamenningarhátíð á Akureyri lauk í gær. Elísabet Ögn Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hátíðarinnar, segir að viðburðir hafi almennt verið vel sóttir og að mikil ánægja hafi verið á meðal gesta í viðtali við heimasíðu Akureyrarbæjar þar sem er fjallað um hátíðina.
„Í ár lögðum við sérstaka áherslu á að skapa skemmtilegar samverustundir fyrir fjölskyldur og bauð dagskráin upp á fjölbreytt úrval viðburða sem höfðu einmitt það að markmiði,“ segir Elísabet Ögn.
Yfir 40 viðburðir voru á dagskrá og var markmið hátíðarinnar sem fyrr að hvetja börn og ungmenni til þátttöku í menningarstarfi – þeim að kostnaðarlausu. Hápunktur hátíðarinnar var án efa Sumartónleikar í Hofi þar sem VÆB-bræður komu fram í fyrsta sinn á Akureyri við mikinn fögnuð. Þá voru einnig haldnar fjölbreyttar smiðjur, danssýningar, tískusýningar og ýmis konar skemmtilegir viðburðir.
Hátíðin var sett með viðhöfn í Hofi í upphafi apríl og stóð yfir allan mánuðinn. Þetta var í áttunda sinn sem Barnamenningarhátíð fer fram á Akureyri og hefur hún fest sig í sessi sem mikilvægur hluti af menningarlífi bæjarins.


COMMENTS