Verður í háloftunum þegar stórleikurinn spilast – „Var búinn að reikna út að við myndum vinna fyrstu 18 leikina“

Verður í háloftunum þegar stórleikurinn spilast – „Var búinn að reikna út að við myndum vinna fyrstu 18 leikina“

Karlalið Þórs í fótbolta mun á morgun, laugardag, spila einn mikilvægasta leik liðsins í yfir áratug þegar liðið ferðast til Reykjavíkur og mætir Þrótti í hreinum úrslitaleik um sæti í Bestu deildinni, efstu deild Íslands í fótbolta. Fjölmiðlamaðurinn Óðinn Svan Óðinsson er einn harðasti Þórsari landsins en hann mun þrátt fyrir það missa af leiknum.

Óðinn verður staddur í flugi á leið til ævintýraeyjunnar Tenerife þegar leikurinn fer fram. Hann segist hafa misreiknað úrslit sumarsins og ekki gert ráð fyrir úrslitaleik á þessum tímapunkti.

„Ég var búinn að reikna það út að við myndum vinna fyrstu 18 leikina í deildinni og fara upp í ágúst og því bókuðum við ferðina alveg óhikað núna um miðjan september. En það gekk ekki og því munum við sitja í flugvél þegar liðið tryggir sæti sitt í deild þeirra bestu á laugardaginn.“

Óðinn segir að það hafi alveg komið til tals að fresta ferðinni vegna leiksins og að margir möguleikar hafi verið skoðaðir.

„Við erum 11 manna hópur Þórsara sem förum alltaf saman erlendis einu sinni á ári. Það voru margir fletir skoðaðir en svo þegar öllu er á botninn hvolft þá hef ég ekki taugar í að vera á leiknum á laugardaginn (þó hann vinnist 0-3) og sú staðreynd að ég mun sitji með 10 góðum vinum í flugi á leið til Tenerife að fagna titli er ekkert svo slæm.“

Óðinn er sannfærður um Þórssigur í leiknum og hefur því engar áhyggjur af því að úrslit leiksins muni skemma stemninguna í ferðinni.

„Ég er vanalega mjög kvíðinn og svartsýnn fyrir Þórsleiki en sú tilfinning er ekki til staðar núna. Er það sannfærður um sigur.“

„Þetta eru allt stemningsmenn sem eru að fara svo ég þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að þessu verði ekki fagnað. Jafnvel að hópurinn leyfi sér einn Dorada í könnu. Ferðin verður bara tvöfalt skemmtilegri. Það er 100%.“

Yfir 100 Þórsarar hafa keypt sér sæti í rútuferðir á leikinn sem Þór mun bjóða uppá frá félagsheimilinu Hamri á laugardagsmorgninum og yfir 1200 miðar hafa selst á leikinn. Það má því búast við alvöru stemningu í Reykjavík á laugardaginn, líkt og á Tenerife.

Óðinn segist gífurlega ánægður með fótboltasumarið hjá Þórsurum og þá stemningu sem hefur myndast í kringum liðið.

„Stemningin sem hefur myndast hægt og rólega í sumar og svo sprungið út núna í haust hefur staðið uppúr þetta tímabil. Það að fá stuðnigsmenn á öllum aldri til að sameinast í því að syngja og tralla á öllum leikjum er ómetanlegt og bara það sem koma skal.“

Eins og áður segir munu Þórsarar tryggja sér sigur í Lengjudeildinni og sæti í efstu deild með sigri í leiknum. Fari svo að Þróttarar vinni munu þeir vinna Lengjudeildina og taka sætið í efstu deild. Ef að liðin gera jafntefli geta Njarðvíkingar náð efsta sætinu með sigri á Grindavík í leik sem fer fram á sama tíma. Það er sannarlega spennandi lokaumferð framundan í Lengjudeildinni.

Ef að allt fer á versta veg eiga Þórsarar þó enn séns á því að næla sér í sæti í efstu deildinni en liðin sem enda í sætum 2 til 5 í Lengjudeildinni munu spila innbyrðis um sæti í efstu deildinni eftir að deildarkeppninni lýkur.

COMMENTS