„Við erum stolt af skólanum okkar“Ljósmyndir: Akureyrarbær

„Við erum stolt af skólanum okkar“

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í Glerárskóla síðustu ár og skólinn er nú orðinn hinn glæsilegasti. Skemmtileg umfjöllun um skrautlega sögu þessara breytinga birtist á heimasíðu Akureyrarbæjar í dag, en textinn hér að neðan er fenginn þaðan.

Fyrsti skólinn í Þorpinu var byggður í Bótinni árið 1908, í kjölfar fræðslulaganna 1907. Árið 1937 reis Árholt, austan núverandi skólahúsnæðis, þar sem skólahald var til 1972 þegar skólinn flutti í nýjan Glerárskóla, í húsnæðið sem í dag kallast A-álma.

Eyrún Skúladóttir, skólastjóri Glerárskóla, hóf störf við skólann árið 2011. Hún segir framkvæmdaferlið hafa verið langt og strangt en líka skemmtilegt. „Ekkert hafði verið hreyft við skólanum frá 1996 en árið 2010 voru gluggar í B-álmu endurnýjaðir. Sumarið 2012 fór allt á flot þegar vatnsvél fór að leka og við urðum að fara í endurbyggingu. Tveimur mánuðum síðar reið næsta áfall yfir þegar eldur kviknaði út frá sömu vatnsvél. Árin 2012 og 2013 voru því erfiður tími,“ segir Eyrún.

Árið 2016 var ákveðið að fara í heildarhönnun á svæðinu. „Starfsfólk og nemendur tóku þátt í öllu ferlinu í gegnum rýnihópa og samráð – og þess vegna tókst þetta svona vel. Leikskólinn færðist inn til okkar í tvö ár, eða til vors 2019. Í maí það ár hófust framkvæmdir í B-álmu og var nemendum og starfsfólki komið fyrir í kjallaranum, bókasafninu, matsalnum og öllum skúmaskotum sem fundust. Opnunarhátíð var svo haldin í september.“

Um haustið héldu framkvæmdir áfram, meðal annars í íþróttahúsinu. „Hluti nemenda var úti í íþróttum fram á vetur en einhverjir hópar fóru í Síðu- og Giljaskóla,“ segir Eyrún en íþróttahúsið var tilbúið í nóvember 2019.

Þetta fína parket-lagða gólf var ein af mörgum nýjunugum í betrumbættu íþróttahúsinu.

Í apríl 2020 hófust framkvæmdir við D-álmu. „Þá funduðum við með starfsfólkinu til að finna út hvernig við kæmum 200 nemendum fyrir á meðan. Tveir árgangar fóru í Síðuskóla og Þórsheimilið, en þremur árgöngum var komið fyrir á göngum, í millistofum og í geymslum skólans. Ný D-álma var afhent í lok ágúst 2020, en engin veisla var haldin vegna heimsfaraldursins.“

Í byrjun janúar 2021 dundi áfall yfir þegar eldur braust aftur út í skólanum. „Það var rosalega erfitt. Skólalóðinni var lokað og við urðum aftur að færa okkur til. Sem betur fer var D-álman þá komin í notkun. Um sumarið var hafist handa við köfuboltavöllinn og í ágúst voru miklar framkvæmdir á lóð og bílastæðum, sem gerðu aðgengi erfitt.“

Árið 2022 var unglingastigið fært yfir í Rósenborg. „Það krafðist mikils skipulags, en það hjálpaði okkur að Lundarskóli hafði verið þar á undan og því var ákveðið skipulag til staðar. Því fylgir samt mikið álag að vera með skólastarf á tveimur stöðum, en í október var komin góð rúlla á það.“

Haustið 2024 hófst skólastarf í endurnýjuðum og glæsilegum Glerárskóla. „Þetta var yndislegur tími og allir sáttir við að vera komin á sama stað. Við héldum opnunarhátíð 30. maí 2025 þó verkinu væri ekki alveg lokið. Síðasta sumar hófust framkvæmdir við skólalóðina. Þetta verður glæsileg aðstaða, en þar sem ekki tókst að klára fyrir veturinn hafa krakkarnir þurft að horfa á tækin inni í girðingu. Við bíðum því spennt eftir vorinu.“

Krakkarnir við Glerárskóla bíða vafalaust spenntir eftir að fá að leika sér í þessum tækjum.

Eyrún segir að þótt gengið hafi á ýmsu hafi framkvæmdirnar tekist vel. „Þetta hefur verið erfitt en við erum rosa glöð í dag. Hönnun skólans er nákvæmlega eins og við starfsfólk vildum hafa hana. Hér fer mjög vel um okkur og börnin hafa staðið sig frábærlega. Skólastarfið hefur blómstrað og þrátt fyrir allt raskið hefur það ekki haft áhrif á faglega starfið okkar. Hér er grósku mikið starf, við erum með 100% fagkennara og gott starfsfólk sem vill vera hér. Glerárskóli er lýðræðislegt samfélag þar sem allir hafa rödd og eru hluti af sömu heildinni. Þannig viljum við hafa hlutina. Við stjórnendur tökum alltaf á móti krökkunum á morgnanna og teljum að það skipti máli fyrir daginn – þessi tilfinning að þú sér hluti af einhverju. Við erum stolt af skólanum okkar.“

COMMENTS