Vígsla á hreinsistöð fráveitu í Sandgerðisbót

Vígsla á hreinsistöð fráveitu í Sandgerðisbót

Vígsla á hreinsistöð fráveitu í Sandgerðisbót fór fram laugardaginn 13. september síðastliðinn. Fjallað er um viðburðinn á Facebook-síðu Norðurorku.

„Með tilkomu hreinsistöðvarinnar, sem tekin var í notkun árið 2020, fer fráveituvatn ekki lengur óhreinsað út í sjó auk þess sem áhrifasvæði útrásar er nú minna og fjær ströndu en áður. Þess má geta að árið 2024 hreinsaði stöðin rúm 46, 5 tonn af rusli úr fráveitunni, sem annars hefðu farið í sjóinn og sýna mælingar að áhrif hreinsunar séu mjög jákvæð,“ segir í tilkynningu Norðurorku.

Leikskólabörn á Hólmasól höfðu málað fallegan borða sem prýddi hreinsistöðina við vígslu. Blái liturinn á borðanum táknar hafið og sýna myndskreytingarnar m.a. fiska, hvali og sjávargróður.

„Það þótti vel við hæfi að börn, framtíðin sjálf, ættu sinn þátt í vígslu á þeirri samfélagslegu búbót sem hreinsistöð fráveitu sannarlega er,“ segir í tilkynningu.

Mynd með frétt: Axel Þórhallson

COMMENTS