beint flug til Færeyja

,,Engar forsendur fyrir KA og Þór í meistaraflokki“

Akureyri Handboltafélag er fallið úr Olís-deild karla í handbolta eftir tap gegn Stjörnunni í gærkvöldi.

Sjá einnig: Akureyri átt handboltalið í efstu deild síðustu 33 ár

Í kjölfarið hefur myndast umræða um framtíð Akureyrar Handboltafélags sem er samstarfssverkefni KA og Þórs en þessir erkifjendur voru sameinaðir sumarið 2006 og hafa leikið undir merkjum Akureyrar síðan.

Sjá einnig: Brestir í samstarfi KA og Þórs varðandi Akureyri Handboltafélag

Kaffið leitaði til nokkra af bestu handknattleiksmönnum Akureyrar um þessar mundir til að fá viðbrögð þeirra við falli Akureyrar og hvernig þeir sjá framtíðina fyrir sér í akureyrskum handbolta. Þeir Arnór Þór Gunnarsson, Árni Þór Sigtryggsson og Geir Guðmundsson voru fyrstir til að svara en von er á fleiri svörum á næstu dögum.

Arnór Þór Gunnarsson – ,,Sé ekki tilganginn í að slíta samstarfinu“

Arnór Þór Gunnarsson

Maður er auðvitað sár yfir því að Akureyri verður ekki í efstu deild á næsta ári. Auðvitað skil ég að menn séu einhverjir byrjaðir að ræða um að slíta samstarfinu en ég sé ekki tilganginn í því. Halda menn að KA eða Þór verði betri af því að það heitir ekki Akureyri? Eða að menn spili betur af því að merki KA eða merki Þórs sé á búningnum? Eða að yngri flokka leikmennirnir verði betri af því þeir sjá að þeir muni bara spila fyrir KA eða bara fyrir Þór? Það held ég ekki! Ég held að menn sem stjórna þessu, yngri flokka þjálfarar og þeir sem eru að snúast í kringum þetta þurfi að skoða hvað sé hægt að gera betur.

Innkaup á leikmönnum í meistaraflokki er auðvitað lottó en það er hægt að vinna markvisst í því að finna góða leikmenn. Þór og KA gerðu það á sínum tíma, góðir erlendir leikmenn geta líka hjálpað yngri leikmönnum að verða betri. Ég sjálfur fékk að kynnast því í Þór með Aigars Lazdins, hann var frábær leikmaður sem maður lærði helling af.

Auðvitað þarf líka að halda vel utan um yngri flokkana alveg upp í 2.flokk. Ég veit að KA og Þór eru með gríðarlega efnilegan 4.flokk, KA er deildarmeistari og Þór bikarmeistari. Það er ekki nóg að vera góður í 4.flokk, það þarf að halda utan um þessa stráka til að bæta þá ár frá ári til þess að þeir komist upp í meistaraflokk og verði samkeppnishæfir á hæsta leveli á Íslandi, jafnvel erlendis.

Í mínum flokki, árgangar fæddir 87-88-89 var haldið gríðarlega vel utan um okkur, við vorum settir saman þrír árgangar. Fyrst var Pabbi (Gunni Mall) með okkur, svo Reynir Stefánsson og svo Tryggvi Kristjánsson. Þarna var markvisst reynt að búa til leikmenn fyrir meistaraflokk og jafnvel fyrir atvinnumennsku. Við erum fjórir sem höfum spilað A-landsleiki og spilað erlendis, Atli Ævar Ingólfsson, Oddur Gretarsson, Sveinbjörn Pétursson og svo ég. Tveir af okkur höfum spilað í bestu handboltadeild í heimi og farið á stórmót með landsliðinu. Ekki má gleyma því að í þessum flokki var einnig fyrirliðinn okkar í fótboltalandsliðinu, Aron bróðir (Aron Einar Gunnarsson). Hann byrjaði með okkur í 7 flokk og alveg uppí 3 flokk. Það sem ég er að meina er að það þarf að halda vel utan um unga stráka og stelpur og vinna markvisst með þeim. Ekki bara fara á æfingu og búið, heldur þarf að búa til hóp sem stendur saman, hóp sem eru vinir, hóp sem vill æfa aukalega og hóp sem vill bæta sig á hverjum degi sem leikmenn. Ég veit ekki hvernig þetta er hjá KA en hjá Þór hefur þessi vinna með yngri flokka verið flott síðustu ár og þeir eiga að halda áfram með það og bæta meira að segja í ef það er hægt.

Mér finnst að Akureyri eigi að vera með lið í efstu deild og það eigi að vera markmið hjá yngri flokka leikmönnum að komast upp í meistaraflokk og vera stoltir af því að spila í meistaraflokk á Akureyri. Til að geta það þurfa þau hjálp frá þjálfurum, stjórnarmönnum og foreldrum, stuðningurinn gleymist oft og er svo mikilvægur fyrir unga stráka og stelpur. Það er ekki heimsendir að Akureyri spili í 1.deild á næsta ári, það eru líka fullt af tækifærum. Til dæmis að leyfa ungum strákum að njóta sín og vaxa sem meistaraflokks leikmenn. Sverre er klárlega maðurinn í það enda góður þjálfari og reynslumikill leikmaður.

Ég hef ekki spilað með Akureyri því ég fór suður og spilaði með Val þegar Þór og KA sameinuðust í eitt félag. Ég væri samt alveg til í að koma heim þegar ég er búinn með atvinnumennskuna og spila heima og vinna með ungum strákum og stelpum á Akureyri. Það eru krakkar á Akureyri sem þekkja ekki Þór né KA sem meistaraflokk þeir þekkja bara Akureyri Handboltafélag og það þarf að halda áfram með. Merki Akureyrar handboltafélags er ekki vandamálið.

Áfram Akureyri Handboltafélag !!

Árni Þór Sigtryggsson – ,,Handboltanum á Akureyri best borgið í þessu formi“

Árni Þór Sigtryggsson

Ég styð áframhaldandi samstarf og tel að handboltanum á Akureyri sé best borgið í þessu formi. Menn mega ekki gleyma ástæðunum fyrir sameiningunni á sínum tíma. Svo núna þegar það liggur fyrir að nokkrir lykilmenn munu yfirgefa liðið þá tel ég að það sé enn mikilvægara að þeir sem eftir eru standi saman.

Liðið og klúbburinn þarf að þjappa sér saman og setja stefnuna beint aftur upp í efstu deild. Spyrnan er best frá botninum. ÍBV og UMFA voru í 1. deild fyrir nokkrum árum síðan en komu bæði gríðarlega sterk aftur upp í efstu deild og hafa verið í hópi bestu liða landsins síðan.

Áfram Akureyri!

Geir Guðmundsson – ,,Engar forsendur fyrir KA og Þór í meistaraflokki“

Samstarf KA og Þórs er í mínum huga lífsnauðsynlegt fyrir handboltann á Akureyri, það ætti því alls ekki að slíta því. Það eru engar forsendur fyrir því að vera bæði með KA og Þór í meistaraflokki. Bæði tel ég að framboð á leikmönnum sem eru nægilega sterkir til þess að koma liðunum aftur upp í deild þeirra bestu sé ekki nægilegt og auk þess tel ég að það yrði afskaplega erfitt, fjárhagslega séð, að halda úti tveim meistaraflokksliðum sem bæði væru að berjast um að fara upp um deild. Hvað ætti svo að gera við leikmenn liðsins? Skipta þeim 50/50? Leikmenn spili með uppeldisfélögum? Af þessum ástæðum tel ég fráleitt að skipta liðinu í tvennt og það væri sennilega það versta í stöðunni.

Geir Guðmundsson

Það er alveg örugglega hellingur sem hefur farið vel í samstarfi félaganna en eitthvað má bæta, það er alveg klárt. Sem Þórsara fannst mér súrt þegar ákvörðun var tekin um að færa heimaleiki liðsins úr hlutleysinu í Höllinni og yfir í KA–heimilið. Ég er viss um að stjórnin hafi haft sínar ástæður og ég geri mér grein fyrir “gryfjuáhrifum” KA–heimilisins en ég veit líka að með þessari breytingu og hvernig var staðið að henni misstu AHF þónokkra áhorfendur og ekki voru allir sáttir. Þegar ég spilaði með AHF fannst mér frábært að spila í Höllinni, áhorfendafjöldi var allt frá 600 og upp í 1400 þegar mest var. Í dag koma um 2 – 300 manns í KA heimilið og það er ekki pláss fyrir mikið fleiri.

Samstarf milli félaganna þarf að vera betra, samskipti þurfa að vera meiri milli þjálfara og það þarf að halda vel utan um unga leikmenn. Samstarfið þyrfti að vera slíkt að þau kerfi og varnarafbrigði sem notuð eru í meistaraflokki ættu að vera líka í 2.flokki og jafnvel alveg niður í 3.flokk hjá KA og Þór, í það minnsta einhverjar útfærslur af þeim. Þannig verða leikmenn betur undirbúnir ef og þegar kallið kemur. Ungir uppaldir leikmenn ættu að vera framtíð klúbbsins og því ætti að hlúa að þeim. Auðvitað er gott að fá nokkra utanaðkomandi leikmenn og/eða þjálfara en þeir mega ekki vera í meirihluta. Hlúa þarf að þeim ungu og efnilegu og gefa þeim tækifæri. Eins er það mikilvægt að halda í menn eins og Róbert og Brynjar Hólm, ungir strákar sem geta orðið hörkuleikmenn. Ég veit að ég og frændi minn, Guðmundur Hólmar, værum ekki á þeim stað sem við erum í dag ef ekki hefði verið fyrir þau tækifæri sem við fengum. Ég vil ekki að ungir og efnilegir leikmenn séu rændir þeim tækifærum sem ég og fleiri hafa fengið í gegnum tíðina.

Nú eiga Akureyringar ekkert lið í efstu deild í fyrsta sinn í 33 ár. Auðvitað er það ekki gott en það þarf ekki að vera heimsendir heldur. Það ætti að líta á þetta sem tækifæri og gefa fleiri ungum tækifæri og móta nýtt lið á næstu árum. Ég er sannfærður um að stoppið verði stutt í 1. deild og að upp komi betra lið en fór niður

Sambíó

UMMÆLI