1.022 nýnemar í Háskólanum á Akureyri


Í vikunni var slegið nýnemamet í Háskólanum á Akureyri þar sem 1.022 nýnemar hófu nám við skólann, en það eru 114 nemendum fleiri en árið áður. Nýnemar komu í skólann fyrr í vikunni þegar kennsla hófst, eða svo kallaðir nýnemadagar. Þá voru 322 sem hefja nám við félagsvísindadeild en til hennar telst m.a. nám í fjölmiðlafræði, félagsvísindi, sálfræði og lögreglufræði. Þetta er í annað skipti sem Háskólinn á Akureyri tekur við nemendum í lögreglufræði og er jafnframt eini skólinn á Íslandi sem býður upp á nám í þeim fræðum. Samtals hófu 157 nám í lögreglufræði á haustmisseri. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskólanum á Akureyri.

Engar aðgangstakmarkanir eru á fyrsta árinu en aðeins 55 nemar komast áfram í hjúkrunarfræði af þeim 156 sem hefja námið á þessu haustmisseri. Þannig er það eins með lögreglufræði, þ.e. af þeim 157 sem hefja námið eru aðeins 40 sem komast að í tveggja ára starfsnám fyrir lögreglumenn en einnig er hægt að halda áfram og ljúka þriggja ára bakkalárnámi í greininni.

Áætlað er að tæplega 2100 nemendur stundi nám við HA þetta skólaár. Í Háskólanum á Akureyri er boðið upp á 13 námsleiðir í grunnnámi, þar af eru 7 námsleiðir sem enginn annar háskóli á Íslandi býður upp á.


UMMÆLI

Sambíó