128.000 ferðamenn komu til Norðurlands með skemmtiferðaskipumBúist við allt að 30% aukningu næsta sumar. Mynd: Hilmar Friðjónsson.

128.000 ferðamenn komu til Norðurlands með skemmtiferðaskipum

Það má með sanni segja að ferðaþjónustan hafi iðað af lífi í sumar á Norðurlandi. Í ár var slegið met í komu skemmtiferðaskipa til hafna Hafnasamlags Norðurlands en þau hafa aldrei verið fleiri en nú. Alls 181 skip kom til hafna hjá Hafnasambandi Norðurlands í sumar en innan þess eru hafnir á Akureyri, Í Hrísey og Grímsey. Flest skipin komu til Akureyrar eða alls í kringum 140 skip frá maí fram í september.  Einnig komu fjölmörg skip til Siglufjarðar og Húsavíkur.

128.000 farþegar heimsóttu Norðurland
Í lok september liggja lokatölur endanlega fyrir en gert er ráð fyrir að um 128.000 gestir hafi komið með skipunum í sumar. Við það bætast 55.000 manns þegar áhafnir eru taldar með. Þetta er gífurlegur fjöldi fólks, og til að setja hann í samhengi er um að ræða sjöfaldan íbúafjölda Akureyrar.

Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands, segir allt hafa gengið vel í sumar. Að vísu hafi eitt skip ekki komið vegna veðurs en annars hafi öll skipin skilað sér. „Þjónustuaðilarnir hérna á Akureyri, jafnt og í Grímsey og Hrísey, eru mjög öflugir  og vöruþróunin mikil svo að allt gengur smurt fyrir sig,“ segir Pétur.

Stærsta skemmtiferðaskip sem hefur komið til Íslands
Í lok maí lagði stærsta skemmtiferðaskip, sem hefur komið til Íslands, við bryggju á Akureyri. Skipið er eitt af 17 skipum skipafélagsins MSC Cruises og ber nafnið MSC Meraviglia og er tæp 167 þúsund tonn að stærð með ríflega 6.000 manns um borð frá 53 þjóðlöndum. Þá þurfti tugi langferðabíla til að flytja allt þetta fólk í nærsveitir og skoðunarferðir ásamt því að farþegarnir leigðu um 100 bílaleigubíla. „Það voru 182 aðilar að vinna á svæðinu eingöngu í kringum þetta stóra skip. Þá er ég ekki einu sinni að telja þá með sem vinna í búðum og veitingahúsum í kring, aðeins hafnarstarfsmenn, tollverði, umboðsmenn, rútubílstjóra, leigubílstjóra, leiðsögumenn o.s.frv. Það má alveg segja að þetta sé okkar stóriðja,“ segir Pétur Ólafsson um komu stærsta skips sem til Akureyrar hefur komið.

Rúmlega helmingur farþega fer í skipulagðar ferðir um Norðurland
Pétur segir komu skemmtiferðaskipanna hafa gríðarlega jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna og veitingageirann á Norðurlandi. Þá sýni reynslan að í kringum 60% farþega á skipunum fari í einhvers konar skipulagðar ferðir, ýmist í Mývatnssveit eða í hvalskoðun á Eyjafirði. „Ég veit að þetta hefur mikla þýðingu fyrir þau fyrirtæki sem sérhæfa sig í þessum geira. Það sést bara með því að horfa á erilinn sem er niður á hafnarsvæðinu þegar stóru skipin koma,“ segir Pétur.

Allt að 30% aukning næsta sumar
Sjaldan hefur Pollurinn á Akureyri verið jafn vinsæll og fimmtudaginn fyrir viku þegar hvorki meira né minna en fimm skemmtiferðaskip komu í heimsókn. Það má segja að þetta sé undirbúningur fyrir það sem koma skal ef marka má spána fyrir næsta sumar, þegar von er á enn fleiri skipum en nú í sumar, en reikna má með um 30% aukningu á farþegum. „Já, við búumst við töluverðri aukningu á næsta ári. Fyrirtækin eru búin að bóka að mestu, eða allt að 99%, svo að við erum að horfa á 25-30% aukningu,“ segir Pétur Ólafsson að lokum.

UMMÆLI

Sambíó