48 stunda gamanmyndakeppni á netinu

48 stunda gamanmyndakeppni á netinu

Gamanmyndahátíð Flateyrar ætlar í samstarfi við Reykjavík Foto að efna til 48 stunda gamanmyndakeppni á netinu. Keppnin er opin öllum og gengur út á það að gera gamanmynd á aðeins 48 klukkustundum. Landsmenn kjósa svo um á netinu hver skemmtilegasta myndin verður.

Árið 2019 hélt Gamanmyndahátíð Flateyrar slíka keppni á Flateyri með gamansömum árangri en nú verður keppnin haldin í gegnum vefsíðu hátíðarinnar, sökum þess ástands sem ríkir í heiminum.

,,Það hefur sjaldan eða aldrei verið betri tími til að reyna að sjá það skemmtilega og spaugilega í lífi okkar og deila með náunganum. Við vonumst til að þátttaka verði góð, bæði á meðal þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í kvikmyndagerð, sem og hjá þeim sem starfa við fagið. Enda fá önnur verkefni í gangi þessa stundina og því kærkomið að leyfa sköpunarkraftinum að njóta sín með því að setja saman stutta og skemmtilega gamanmynd,“ segir í tilkynningunni.

Keppnin fer þannig fram að lið eða einstaklingar skrá sig til leiks á vefsíðunni www.IcelandComedyFilmFestival.com

Klukkan 20:00 þann 27. mars fá skráð lið send til sín nákvæmari upplýsingar um keppnina og þurfa liðin að skila inn tilbúnni gamanmynd fyrir klukkan 20:00 þann 29. mars. Dómnefnd mun velja fyndnustu stuttmyndirnar sem verða birtar opinberlega þar sem landsmenn fá að kjósa fyndnustu 48 stunda gamanmyndina.

Fyndnasta gamanmyndin að mati landsmanna fær að launum glæsilega Canon EOS M50 4k myndavél ásamt 15-45mm linsu frá Reykjavík Foto.

Öll lið sem komast í úrslit í 48 stunda gamanmyndakeppnina fá tvö hátíðararmbönd á Gamanmyndahátíð Flateyrar sem fer fram dagana 13-16 ágúst 2020.

Leikreglur:

  • Keppnin er opin öllum, hvort sem þú er að gera þína fyrstu stuttmynd eða átt tíu Eddur upp á hillu hjá þér.
  • Fjöldi einstaklinga í hverju liði er frjáls. Stakir einstaklingar geta líka teikið þátt.
  • Allt myndefni sem er notað í myndinni skal vera tekið upp dagana 27.-29. mars 2020
  • Myndin skal ekki vera lengri en þrjár mínútur. (180 sekúntur)
  • Myndin skal fylgja því þema og þeim leikreglum sem verða sendar út til liðanna 27. mars.
  • Fyndnasta myndin verður valin með áhorfendakosningu á netinu.
  • Gamanmyndahátíð Flateyrar hefur leyfi til að sýna myndirnar á þeim viðburðum sem hátíðin stendur fyrir.

UMMÆLI

Sambíó