Yfir 6 milljónir söfnuðust á innan við sólarhring: „Ég fæ bara gæsahúð“Málfríður Stefanía Þórðardóttir

Yfir 6 milljónir söfnuðust á innan við sólarhring: „Ég fæ bara gæsahúð“

Málfríður Stefanía Þórðardóttir, ljósmóðir, hefur verið öryrki síðan árið 2018 eftir að hún fór í minniháttar aðgerð. Málfríður hefur gengist undir 3 aðgerðir í kjölfarið og gengið á milli lækna síðustu ár til að létta á verkjunum með lyfja- eða rafmeðferðum.

„Hennar skaði er út fyrir alla þekkingu íslenskra lækna og eftir mikla leit fann mamma sérfræðing í Sviss sem gat greint hennar skaða og telur sig geta lagað hann! Hún hefur fengið aðgerðardag eftir 3 vikur en sú aðgerð kostar 6,3 milljónir,“ skrifar Heiða Hansdóttir, dóttir Málfríðar í stöðuuppfærslu á Facebook sem hefur fengið yfir 900 deilingar.

Heiða stofnaði söfnunarreikning á nafni móður sinnar til þess að safna fyrir aðgerðinni. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og á rétt tæpum sólarhring náðist markmiðið.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja, ég er bæði klökk og hrærð eftir daginn. Seinni partinn í dag fór ég í bankann og millifærði 6.3 milljónir á lækninn. Þetta tókst með ykkar hjálp, þvílik samkennd og hlýhugur, ég fæ bara gæsahúð. Vonandi fæ ég tækifæri til að gera einhver góðverk og grípa einhver börn aftur. Innilegar þakkir til ykkar allra,“ skrifaði Málfríður á Facebook í gær.

UMMÆLI

Sambíó