Nýr forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og rannsókna við Háskólann á AkureyriMynd: Unak.is

Nýr forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og rannsókna við Háskólann á Akureyri

Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir hefur tekið við sem forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms og rannsókna við Háskólann á Akureyri. Þetta kemur fram á vef Háskólans.

Guðrún hefur starfað hjá RHA frá 2006, lengst af sem forstöðumaður eða síðan í ársbyrjun 2008. Guðrún var jafnframt framkvæmdarstjóri skrifstofu Rannsóknarþings Norðursins (e: Northern Research Forum (NRF)) frá 2007 til 2017. Guðrún hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum í starfi sínu á RHA, meðal annars sem snúa að norðurslóða-, mennta- og byggðamálum og sinnti starfi rannsóknastjóra HA fyrir tíð Miðstöðvar doktorsnáms og rannsókna.

Á vef HA segir að Guðrún Rósa muni sjá um daglega stjórnun Miðstöðvar doktorsnáms og miðlægrar stjórnsýslu rannsókna og verði ábyrg fyrir þeim verkefnum sem miðstöðinni eru falin. „Hún mun vinna með formanni doktorsnámsráðs að þróun og mótun doktorsnámsins við HA ásamt því að hafa eftirlit með að settum gæðaferlum varðandi doktorsnám sé fylgt. Þá hefur Guðrún Rósa yfirumsjón með stjórnsýslu rannsókna og innleiðingu Írisar – upplýsingakerfi um rannsóknir ásamt því að veita vísindamönnum háskólans aðstoð í umsýslu og utanumhaldi um öflun og meðhöndlun rannsóknafjár.“

Guðrún Rósa segir mörg spennandi verkefni framundan hjá Miðstöð doktorsnáms: „Meðal þeirra get ég nefnt að þróa og móta áfram doktorsnámið við Háskólann á Akureyri ásamt því að taka þátt í innleiðingu Írisar“.

„Markmið doktorsnámsins við HA er að doktorsnemar öðlist þá þekkingu og færni sem er nauðsynleg til að stunda sjálfstæð vísindastörf og afla sér nýrrar þekkingar. Doktorsnemar eru hluti af rannsóknateymi og með doktorsnáminu koma inn nýir og ferskir straumar með ungum vísindamönnum sem læra af þeim reyndari. Doktorsnámið gefur aukin tækifæri á rannsóknafjármagni úr samkeppnissjóðum ásamt því að auka nýsköpun og grósku í rannsóknum“, segir Guðrún Rósa á vef skólans.

UMMÆLI

Sambíó