Fjórða og síðasta smáskífan af væntanlegri plötu Rakelar

Fjórða og síðasta smáskífan af væntanlegri plötu Rakelar

Í dag kemur út fjórða og síðasta smáskífa af væntanlegri plötu RAKEL-ar, a place to be. Lagið touch=change sýnir nýja hlið á Rakel sem listakonu, en það er angurvær ballaða með kassagítar í forgrunni.

RAKEL segir: „“touch=change“ er hugleiðing um þær breytingar sem fylgja öllum því sem við gerum. Hver snerting skilur eftir sig eitthvað sem breytir okkur eða umhverfinu okkar. Ég var nýbyrjuð að lesa bókina Parable of the Sower eftir Octaviu E. Butler þegar ég rakst á setninguna „All that you touch you change. All that you change changes you.“ Þessi setning hafði þau áhrif að ég lagði bókina frá mér um leið, komin alla leið á blaðsíðu 3, og samdi þetta lag.“

a place to be kemur út þann 17. október næstkomandi á vegum OPIA Community. Hægt er að forpanta plötuna hér.

Hlusta: touch=change ft. Skúli Sverrisson

a place to be varð til á Stað í Hrútafirði, sveitabænum þar sem afi Rakelar ólst upp. Árið 1960 stofnaði hann, ásamt bróður sínum, vegasjoppuna Staðarskála. Þangað fór Rakel með SBA Norðurleið rútunni hvert einasta sumar unglingsára hennar til þess að selja pylsur og aðrar kræsingar. Það kom að því að Staðarskáli var seldur, þjóðvegurinn færður og Staður missti ákveðna merkingu fyrir Rakel. Fyrir nokkrum árum fór hún að finna fyrir söknuði til Staðar svo hún ákvað að fara þangað oftar í þeim tilgangi að semja lög. Afrakstur þessarra ferðalaga er platan a place to be.

Danska tónlistarkonan og „próducer-inn“, Sara Flindt, ferðaðist með Rakel milli hljóðvera á Íslandi og Danmörku á þar sem þær tóku upp plötuna í skorpum yfir tvö ár. Lögin sjálf endurspegla þetta ferðalag. Þau leiða þig í gegnum ólík rými, sum raunveruleg en líka tilfinningaleg og sálræn rými innra með Rakel sem listamanni. Á a place to be kynnast hlustendur Rakel, „emo-stelpunni“ í unglingaherberginu sínu, „autotune synth-pop“ Rakel ráfandi um götur Reykjavíkur með heyrnartólin á höfðinu, og Rakel sem situr í tilfinningunum sínum á sófanum heima með með gítarinn. 

Á plötunni spilar einvala lið tónlistarfólks en þar má nefna Nönnu (Of Monsters and Men), Skúla Sverrisson, Kasper Staub (Lowly), Salóme Katrínu, Berg Þórisson, Björgu Brjánsdóttur og Ómar Guðjónsson. Platan er mixuð af Lukas Loeb og masteruð af Zino Mikorey.

Umslag plötunnar eftir Aron Frey Heimisson

RAKEL mun koma fram á tónleikum í Mengi 4. október ásamt Salóme Katrínu og Tuma Torfasyni þar sem lög af komandi plötu verða í forgrunni. Miðasala hér.

RAKEL þarf vart að kynna fyrir íslenskum tónlistarunnendum enda hefur tónlist hennar reglulega ratað á topp vinsældarlista hér á landi, hún troðið upp með fjölmörgum þjóðþekktum tónlistarmönnum og hljómsveitum (s.s. Lón, Ceasetone, Nönnu, Damon Albarn, Kaktusi Einarssyni, Axel Flóvent o.fl.) og hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun fyrir tónlist sína. 

Hlusta á fyrri smáskífur:

rescue remedy

i am only thoughts running through myself

pickled peaches (ásamt Nönnu, Salóme Katrínu og Skúla Sverrissyni)

COMMENTS