Hákon Guðni og Klara Elias gefa út nýtt lag

Hákon Guðni og Klara Elias gefa út nýtt lag

Á miðnætti kemur út lagið Sé þig seinna með Akureyringnum Hákoni Guðna Hjartarsyni og Klöru Ósk Elíasdóttir, Klöru Elias.

„’Sé þig seinna’ fjallar um söknuð, fortíðarþrá og eftirsjá. Það að þrá ekkert heitar en að heyra rödd einhvers sem skipti mann máli,“ segir Hákon í spjalli við Kaffið.is.

Sé þig seinna er annað lagið sem Hákon gefur út á árinu en á dögunum gaf hann út lagið Silhouette með tónlistarkonunni Malen. Þar vann hann með tónskáldinu Halldóri Gunnari Pálssyni sem vann einnig með honum á nýja laginu. Hákon segist hafa unnið mikið með bæði Klöru og Halldóri undanfarið og að Sé þig seinna sé eitt af mörgum lögum sem hafi komið úr vinnunni.

Sjá einnig: Malen og hákon gefa út nýtt lag

„Við þrjú náum virkilega vel saman, bæði í hljóðveri og utan, jafnvel bara orðin frekar góðir vinir. Þau eru bæði uppfull af hæfileikum og reynslu og tel ég mig heppinn að fá að vinna með þeim reglulega, í ýmsum verkefnum. Mörgum hverjum sem munu líta dagsins ljós fljótlega.“

Sjálfur hefur Hákon mest unnið á bak við tjöldin í tónlistargerð síðasta rúma áratuginn, sem lagahöfundur og pródúser. Hann bjó í London í um 6 ár og í rúmt ár í Kaupmannahöfn. Erlendis sótti hann tónlistarnám í ICMP skólanum og vann sem lagahöfundur með listafólki víða að úr heiminum og hafa lög eftir hann verið streymd vel yfir 100 milljón sinnum.

Eftir að Hákon flutti heim til Íslands á nýjan leik á Covid tímabilinu fór hann svo að vinna meira með íslensku tónlistarfólki.

„Samhliða því fór ég að snúa mér í meira mæli að eigin verkefnum. Lögin ‘Silhouette’ og ‘Sé þig seinna’ eru fyrstu tvö lögin sem ég ætla að leyfa ykkur að heyra. En ég segi ykkur betur frá hinum seinna,“ segir Hákon.

COMMENTS