Veglegur styrkur fyrir verkefni um sjálfbæra menntaforystu á Norðurlöndum og norðurslóðum

Veglegur styrkur fyrir verkefni um sjálfbæra menntaforystu á Norðurlöndum og norðurslóðum

Dr. Sigríður Margrét Sigurðardóttir, dósent við kennaradeild Háskólans á Akureyri, hefur hlotið veglegan styrk úr Nordic Arctic Programme (NAPA), sjóði á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.

Styrkurinn er sá hæsti sem veittur er árlega úr sjóðnum og mun styrkja fyrsta árið í þriggja ára rannsóknarverkefni sem ber heitið „Sustainable Nordic and Arctic Educational Leadership in Times of Opportunities and Challenges“ sem á íslensku gæti útlagst sem Sjálfbær menntaforysta á Norðurlöndum og norðurslóðum á tímum tækifæra og áskorana. Greint er frá á vef Háskólans á Akureyri, unak.is.

„Það er sérstakt að fá að vinna að verkefni sem tengir norðurslóðirnar í menntaforystu. Það er bæði faglegur og persónulegur heiður að fá þennan styrk og að leiða verkefni sem sameinar skólastjóra og fræðafólk frá þessum svæðum í sameiginlegri sýn á sjálfbæra menntaforystu,“ segir Sigríður.

„Við viljum varpa ljósi á mikilvægi menntunar sem einnar af helstu stoðum samfélagsþróunar, seiglu og jöfnum tækifærum barna og ungmenna – sama hvar þau búa. Með því að virkja skólastjóra beint í rannsókninni byggjum við upp þekkingu sem nýtist bæði í stefnumótun og í daglegu skólastarfi.“

Ítarlegri umfjöllun má finna á vef Háskólans á Akureyri með því að smella hér.

COMMENTS