Stefán Oddur nýr ráðgjafi hjá Aflinu

Stefán Oddur nýr ráðgjafi hjá Aflinu

Stefán Oddur Hrafnsson hóf störf hjá Aflinu á Akureyri í ágúst. Aflið hefur ekki haft karlkyns ráðgjafa í nokkur ár og í tilkynningu frá Aflinu segir að ráðning Stefáns geri samtökunum kleift að mæta þörfum þeirra sem leita til Aflsins betur.

Stefán er með B.A. gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands og stundar nám í menntunarfræðum við Háskólann á Akureyri auk þess að starfa sem aðstoðarkennari.

„Ofbeldi gegnsýrir samfélagið á margvíslegan hátt, og því er mikilvægt að allir einstaklingar, óháð kyni, viti að þeir eigi skilið stuðning ef þeir hafa orðið fyrir ofbeldi. Karlar sem leita til Aflsins gera það af fjölbreyttum ástæðum. Í árskýrslu 2024 kom fram að flestir karlmenn leituðu til Aflsins vegna andlegs ofbeldis, ofbeldis í nánu sambandi og gaslýsingu. Afleiðingar sem karlar nefndu voru til dæmis einbeitingarskortur, einangrun, hegðunarvandamál og breytt kynlífshegðun,“ segir í tilkynningu Aflsins.

„Við hjá Aflinu höfum alltaf reynt að hlusta á samfélagið og fólkið sem til okkar kemur. Það skiptir miklu máli að geta boðið upp á val og öryggi í ráðgjöfinni okkar,“ segir Erla Hrönn, framkvæmdastýra samtakanna. Hún bætir við að það sé einnig gott fyrir ráðgjafahópinn þegar hann stækkar, því nýtt fólk kemur með ólíka sýn sem styrkir teymisvinnuna, sem er stór hluti af starfsemi Aflsins.

Ráðgjöf Aflsins er fyrir alla þolendur ofbeldis og aðstandendur þeirra. Allir eru velkomnir, jafnvel þótt þeir séu ekki alveg vissir hvort þetta sé fyrir þá. Viðtöl hjá Aflinu eru öllum að kostnaðarlausu – þú getur bókað viðtal hjá Stefáni hér: www.noona.is/aflidak

COMMENTS