Akureyringurinn Inga Bryndís Árnadóttir hefur verið ráðin til Grófarinnar Geðrækt á Akureyri. Inga, sem er 35 ára gömul, hefur þegar hafið störf en hún er að koma til starfa eftir tvö fæðingarorlof.
Áður hefur hún starfað sem fræðslu- og hagsmunafulltrúi hjá Krafti. Fyrir það bjó hún í Kaupmannahöfn þar sem hún starfaði í hagsmunagæslu flóttafólks.
Inga mun meðal annars verkefnastýra Lausu Skrúfunni í ár. Lausa Skrúfan er vitundarvakningar- og fjáröflunarverkefni Grófarinnar Geðræktar.
„Ég þekki vinnu félagasamtaka vel en er enn að kynnast þessum þarfa málaflokki betur. Ég er ótrúlega opin og er alltaf til í spjall,“ segir Inga Bryndís í tilkynningu á samfélagsmiðlum Grófarinnar.
Grófin geðrækt er gjaldfrjálst úrræði fyrir einstaklinga 18 ára og eldri á öllum stigum lífsins sem vilja bæta heilsuna með geðrækt og batavinnu gegnum hópastarf á jafningjagrundvelli.
Markmið Grófarinnar er meðal annars að skapa tækifæri fyrir þau sem glíma við andlega erfiðleika til að vinna í sínum bata á eigin forsendum og á eigin ábyrgð, sem og að skapa vettvang fyrir öll þau sem vilja vinna að geðrækt á jafningjagrundvelli, hvort sem þeir eru notendur geðheilbrigðisþjónustunnar, fagaðilar, aðstandendur eða einfaldlega áhugafólk um framfarir í geðheilbrigðismálum.


COMMENTS