Að greinast með krabbamein er mikið áfall

Dagur Bleiku slaufunnar er mikið fagnaðarefni.

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis hefur verið starfrækt í rúmlega 65 ár og hjálpað ótrúlega mörgum í baráttunni við krabbamein. Félagið er með skrifstofuhúsnæði á Akureyri en starfsvæðið nær frá Siglufirði í vestri og austur að Stóru-Tjörnum í Fnjóskadal. Þjónusta félagsins býðst skjólstæðingum og aðstandendum þeim að kostnaðarlausu.

Mikilvægt að geta leitað til félagsins eftir stuðningi og fræðslu
Félagið er með mjög fjölbreytta starfsemi en það býður upp á allskonar námskeið, ráðgjöf og fræðslu fyrir þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur þeirra. Einnig stendur félagið fyrir öðrum námskeiðum líkt og Reykleysisnámskeiði og fræðslu um kynheilbrigði. Þá er félagið líka með fræðslu fyrir aðstandendur og fólk sem hefur lokið lyfjameðferð. Einnig er sérstakur sorgarhópur fyrir ekkjur og ekkla og sérstakur hópur fyrir karlmenn með krabbamein.

„Þegar fólk greinist með krabbamein þá er það mikið áfall fyrir einstaklinginn og fjölskyldu hans. Því er mikilvægt að hafa félag eins og okkar í nærumhverfinu sem hægt er að leita til með stuðning og  upplýsingar um næstu skref,“ segir Halldóra Björg Sævarsdóttir, framkvæmdastjóri félagsins.

Aðstoða alla sem þurfa á hjálpinni að halda
Krabbameinsfélagið leitar allra mögulegra leiða við að aðstoða þá sem þurfa. Starfsemi þess er víðtæk og metnaðarfull. Félagið styrkir t.a.m. einstaklinga af sínu félagssvæði sem þurfa að dvelja í íbúðum Krabbameinsfélags Íslands í Reykjavík, vegna meðferða. Sótt er um afnot af íbúðunum á móttöku Geisladeildar Landspítalans. Félagið hefur einnig innan sinna vébanda starfsemi á borð við skapandi handverk sem og samstarf við Eirberg sem býður upp á gervibrjóst og sérhannaða brjóstahaldara og sundföt. Á næstunni er svo fyrirhugað að fara af stað með námskeið fyrir börn og ungmenni á aldrinum 8-14 ára sem eiga það sameiginlegt að eiga einhvern eða einhverja nákomna sem greinast með krabbamein.

Fulltrúar Krabbameinsfélagsins og Eirbergs með vörur frá Eirberg.

Dömulegir dekurdagar stærsti styrktaraðilinn
Einn helsti styrktaraðili Krabbameinsfélagsins eru Dömulegir dekurdagar, sem eru haldnir ár hvert í október á Akureyri. Október er mánuður Bleiku slaufunnar en hún er tákn Krabbameinsfélagsins í baráttunni við krabbamein hjá konum. Mottumars er einnig stór styrktaraðili félagsins. Reykjavíkurmaraþonið skilar alltaf stórri upphæð inn til Krabbameinsfélagsins þegar fólk hleypur fyrir félagið. Þá er einnig hægt að kaupa minningarkort hjá blómabúðinni Akri, Blómabúð Akureyrar, Eymundsson, Heilsugæslunni Dalvík og SR byggingavörum á Siglufirði til styrktar félaginu.
Öll framlög til félagsins eru velkomin enda starfsemin gríðarlega mikilvæg fyrir Norðlendinga en mikið af starfi þess er unnið í sjálfboðavinnu. Þar fyrir utan starfa þær Halldóra Björg Sævarsdóttir, framkvæmdastjóri; Regína Ólafsdóttir, sálfræðingur; Katrín Ösp Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og Eva Björg Óskarsdóttir, grafískur hönnuður, hjá félaginu.

Skrifstofa félagsins er í leiguhúsnæði að Glerárgötu 24 á Akureyri og er opin mánudaga til fimmtudaga 13:00-16:00 en á þriðjudögum er hún opin 13:00-17:00.

Greinin birtist upphaflega í fréttablaðinu Norðurlandi 22. febrúar undir yfirskriftinni: Félagið mitt. Félagið mitt er þáttur í Norðurlandi þar sem ýmis frjáls félagasamtök á Akureyri og nágrenni eru kynnt og með því  er markmiðið að kynna það flotta og frábæra sjálfboðastarf sem mörg þessara félaga vinna og fær yfirleitt ekki næga umfjöllun í fjölmiðlum.

UMMÆLI