Þýskir fjárfestar sem hyggjast endurvekja akureyska flugfélagið NiceAir kynntu í dag áform sín á blaðamannafundi í Flugsafninu á Akureyri. Þar lagði Martin Michael, einn forsvarsmanna hins nýja Nice Air, áherslu á að endurreisn félagsins yrði gerð af varfærni, í áföngum og með áherslu á traust og góðan rekstur.
Stefnt er að fyrstu flugum nýja NiceAir milli Akureyrar og Kaupmannahafnar í febrúar. Fyrstu tvær ferðirnar eru áformaðar fimmtudaginn 19. febrúar og sunnudaginn 22. febrúar, sem gerir farþegum kleift að nýta langa helgi annaðhvort norðanlands eða í Danmörku.
Ef fyrstu flugin ganga vel hyggst NiceAir kanna möguleika á fleiri áfangastöðum á álagstímum, svo sem yfir sumar og helgar, auk svokallaðra „pop-up“ fluga og leigufluga, líkt og jólaferðar til Berlínar sem félagið bauð upp á áður. Til lengri tíma litið er markmiðið að koma á reglulegu flugi allt árið milli Akureyrar og Kaupmannahafnar, þó með minni flugvélum utan háannatíma.


COMMENTS