Ætla að ráðast strax í uppbyggingu flugvalla á Akureyri og Egilsstöðum – ,,Brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða þrátt fyrir covid-19″Akureyrarflugvöllur. Mynd: Hörður Geirsson.

Ætla að ráðast strax í uppbyggingu flugvalla á Akureyri og Egilsstöðum – ,,Brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða þrátt fyrir covid-19″

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tilkynnti á facebook síðu sinni í dag að sérstakt 15 milljarða króna flýtifjárfestingarátak hefjist von bráðar. Átakið var kynnt í Hörpu sl. laugardag þar sem allir voru sammála um mikilvægi þess að bregðast hratt við og gera langtímaáætlanir eins og kostur er í þessari erfiðu stöðu sem samfélagið glímir við.

Áformað er að stækka flugstöðina á Akureyri, flughlað á Akureyri og akbraut á Egilsstaðaflugvelli. Þá er lögð áhersla á að hefjast handa strax við þessi verkefni og í undirbúning verður eytt 500-600 milljónum. Í tilkynningunni segir Sigurður m.a.; „Það er mikilvægt að halda áfram að byggja upp vegi, flugvelli og hafnir svo samfélagið verði í stakk búið þegar Covid-19 faraldurinn verður um garð genginn. Þrátt fyrir hrun í ferðaþjónustunni er brýn þörf fyrir uppbyggingu innviða og eru flugvellir einn af lykilþáttum fjárfestingarátaksins. Notum því tímann vel og höldum áfram.“

Um 40 ársverk skapast hjá verktökum á svæðinu

Auk þess að styðja við eflingu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi verða verkefnin einnig atvinnuskapandi fyrir verktaka á svæðinu. Áætlað er að um 40 ársverk skapist í verkefninu, fjölbreytt störf með skömmum fyrirvara.

„Viðbygging við flugstöð á Akureyri styður við eflingu ferðaþjónustunnar á Norðurlandi þegar allt fer í gang aftur. Stækkun á flughlaði á Akureyrarflugvelli eykur öryggi flugvallarins. Hægt er að bjóða verkið út á vormánuðum og má áætla að um 40 ársverk skapist hjá verktökum á svæðinu. Á Egilsstöðum eykst rekstraröryggi Egilsstaðarflugvallar og flugöryggi á Íslandi almennt. Hægt verður að taka á móti stærri flugvélum sem skapa auk þess atvinnu á svæðinu.
Verkefnin eru arðbær. Þeim er hægt að flýta og þau skapa fjölbreytt störf með skömmum fyrirvara. Samgönguáætlun hefur gefið tóninn að þeim verkefnum sem munu líta dagsins ljós og munu auknir fjármunir verða settir í verkefni um allt land. Þegar fram í sækir mun samkeppnishæfni landsins eiga mikið undir góðum alþjóðlegum flugtengingum en fleiri hlið inn til landsins hafa verið á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.
Í nýrri flugstefnu sem ég mælti fyrir í samgönguáætlun er horft til lengri tíma og er rík áhersla lögð á að alþjóðaflugvellir landsins mæti sem best þörfum flugrekanda fyrir varaflugvelli og fleiri hliðum inn til landsins verði fjölgað sem geta notið góðs af ferðaþjónustu. Hjá ríkisstjórninni er síðan annað átak í undirbúningi sem tekur við á árunum 2021-2023 og mun flýting þessara framkvæmda sem og annarra samgönguframkvæmda birtast þar. Gerum það sem gera þarf og verum skynsöm,“
er haft eftir Sigurði Inga í tilkynningu hans.


UMMÆLI