„Akureyri er mikill háskólabær og að mínu mati er allt til alls hér“

„Akureyri er mikill háskólabær og að mínu mati er allt til alls hér“

Salbjörg Ragnarsdóttir, sem er stúdent í  lögfræði við HA, er viðmælandi dagsins í föstum lið þar sem við fáum að kynnast mannlífinu í Háskólanum á Akureyri.


– Í HVAÐA NÁMI ERT ÞÚ?

Ég er í lögfræði við Háskólann á Akureyri.

– ÞEGAR ÞÚ HORFIR TIL BAKA, HVAÐ HEFUR STAÐIÐ UPP ÚR Í HA?

Þegar ég lít til baka á upplifun mína sem stúdent við Háskólann hef ég einungis góð orð að segja. Það sem stendur hvað mest upp úr hjá mér er að læra það sem mér þykir skemmtilegast, með bestu vinkonum mínum og  undir leiðsögn sprenglærðra og reynslumikilla kennara – sem þekkja mann oftar en ekki á nafni. Ég er einnig þakklát fyrir félagslífið í HA, þar sem stúdentar kynnast auðveldlega þvert á deildir og tengslanetið verður því sterkara, sem er ómetanlegt.

– HVERNIG FINNST ÞÉR HÁSKÓLALÍFIÐ Á AKUREYRI?

Akureyri er mikill háskólabær og að mínu mati er allt til alls hér. Það er langskemmtilegast að vera staðnemi, enda er aðstaðan í skólanum frábær; bókasafnið, mötuneytið auk þess að margir kennarar eru á staðnum. Ég veit þó að vinum mínum sem eru fjarnemar þykir ótrúlega gaman að koma norður í lotu. Það er vissulega keyrsla í lotum en alltaf eitthvað um að vera hjá félögunum sem gerir hana nánast alltaf skemmtilega, þó það sé mikið að gera. Framundan hjá mér eru ritgerðarskrif og því ómetanlegt að geta nýtt sér aðstöðu HA til þess.

– HVAÐA RÁÐ MYNDIR ÞÚ GEFA NÝNEMUM SEM ERU AÐ HEFJA NÁM VIÐ HÁSKÓLANN?

Ég myndi ráðleggja nýnemum að leggja sig fram og taka virkan þátt í félagslífinu. Lögfræðin er krefjandi, en með stuðningi vina í formi mikils pepps og góðum félagsskap er þetta bara gaman. Það sem drífur mig áfram er að leggja mig alla fram í náminu, sýna metnað í öllu því sem ég tek mér fyrir hendur, sama hve lítið verkefnið er. Að vinna vel með tímanum er ábyggilega mikilvægasta ráðið mitt; ekki geyma hlutina og finna gott jafnvægi milli námsins, félagslífs og annarra þátta lífsins sem nauðsynlegt er að sinna.

– ÞRJÁR ÁSTÆÐUR AF HVERJU ÞÚ VALDIR HÁSKÓLANN Á AKUREYRI?

Ég valdi HA vegna þess að ég er að norðan og hef alltaf búið hér, auk þess var ég í MA og kunni vel við mig í námi á Akureyri. Foreldrar mínir hafa stundað nám við Háskólann og höfðu einnig góða upplifun af því. Mér þykir mikill kostur að námið í HA sé sveigjanlegt. Það er ómetanlegt að eiga þann möguleika að stunda námið sem ég hef alltaf ætlað mér hér heima og þurfa ekki að flytja suður til þess. 

Að lokum; þá valdi ég lögfræðina vegna sterkrar réttlætiskenndar, eins og margir laganemar myndu kannski svara, auk almenns áhuga mínum á lagakerfum heimsins og alþjóðalögum sem er einmitt mikið kennt hér við HA og meira en við aðrar lagadeildir hérlendis.

COMMENTS