Almennt mikið traust til heilsugæslunnar á landsbyggðinni

Almennt mikið traust til heilsugæslunnar á landsbyggðinni

Könnunin var gerð af Maskínu fyrir Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) en kannanir sem þessar eru liður í eftirliti SÍ með þjónustu sem veitt er á grundvelli samninga við stofnunina. Niðurstöðurnar hafa þegar verið kynntar rekstraraðilum og verða nýttar bæði af SÍ og einstökum þjónustuveitendum til að þróa og efla þjónustuna. 

Slembiúrtak var gert meðal þeirra sem sótt höfðu heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni undangengna 12 mánuði. Könnunin var lögð fyrir 5.-30. nóvember en rúmlega sex þúsund einstaklingar þátt í könnunni.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru þær að almennt bera einstaklingar mikið traust til heilsugæslunnar á landsbyggðinni eða 70% aðspurðra og 69,4% eru ánægðir með þjónustuna. 85,6% svarenda töldu viðmót og framkomu starfsfólks almennt gott. Nærri 86% sögðust hafa fengið þjónustu á heilsugæslustöð innan viku, en þó telja 49% það brýnt að stytta bið eftir þjónustu hjá heilsugæslunni. Um 39% telja mikilvægt að auðvelda aðgengi að læknum í síma og tæp 36% óska eftir að geta skráð sig á fastan heimilislækni.

Þegar niðurstöður eru bornar saman milli heilbrigðisstofnanna sex , Austurlands, Norðurlands, Suðurlands, Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða sést sterk fylgni á milli ánægju svarenda og hversu margir eru með skráðan heimilillækni.

Hafa verður í huga við samanburð á milli stöðva að ýmislegt getur haft áhrif á þjónustu stöðvarinnar á því tímabili sem er skoðað, eins og t.d. heimsfaraldur, mannekla, álag og starfsmannaskipti. Það vekur þó athygli að um 90% svarenda telja þjónustu heilsugæslustöðva eins eða jafnvel betri þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn.

SÍ telja þessa könnun veita verðmætar upplýsingar um það sem vel er gert og það sem betur má fara hjá einstökum heilsugæslustöðvum. Gögnin eru mikilvægt verkfæri fyrir bæði SÍ og heilsugæslustöðvar til að þróa og bæta þjónustuna enn frekar.

Hægt er að skoða frekari niðurstöður könnunarinnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan:

https://www.maskina.is/maelabord/heilsugaesla-landsbyggd/ (Opnast í nýjum vafraglugga)

UMMÆLI