Múlaberg

Amtsbókasafnið 190 ára

Á Amtsbókasafninu árið 1992. Mynd: akureyri.is

Í ár fagnar Amtsbókasafnið á Akureyri 190 ára afmæli sínu. Safnið var stofnað árið 1827 af Grími Jónssyni, amtmanni á Möðruvöllum, og sleit barnsskóm sínum í vörslu Andreasar Mohrs, faktors Gudmannsverslunar, í húsi sem enn stendur í dag og er í daglegu tali nefnt Laxdalshús. Næstu 120 árin átti Amtsbókasafnið eftir að vera víða til húsa í bænum. Lengi vel voru notendur fáir, aðeins um 20-30 fastagestir. Árgjald nam um dagslaunum verkamanns á þeim tíma. Bókakosturinn var ekki við allra hæfi, sér í lagi ekki almennings, en fæstar bókanna voru á íslensku. Árið 1894 var ákveðið að lána bækur endurgjaldslaust og við það jókst lestur mikið.

Í kjölfar vaxandi vinsælda fjölgaði bókum og ritum í safnkostinum, sem kallaði á stærra húsnæði. Kaflaskil urðu í sögu Amtsbókasafnsins þegar Akureyrarkaupstaður eignaðist safnið árið 1905. Þeim samningum fylgdi það skilyrði að byggt yrði utan um safnið eldtraust geymsluhús auk lestrarstofu en sökum kreppu- og erfiðleikatíma liðu þó nokkur ár þar til það varð að veruleika.

Loks var hið nýja húsnæði vígt við hátíðlega athöfn þann 9. nóvember árið 1968 í tilefni 100 ára afmælis Akureyrarkaupstaðar. Eftir að hafa verið á húsnæðishrakningi í 140 ár fékk safnið loks varanlegt húsnæði við Brekkugötu 17.

Amtsbókasafnið er elsta stofnun bæjarins. Þjónusta safnsins, sem er í sífelldri þróun, nýtur mikilla vinsælda og eru daglegar heimsóknir að meðaltali um 400 eða um 100.000 á ári. Safnkosturinn stækkar með ári hverju og eru yfir 200.000 titlar aðgengilegir í safninu. Amtsbókasafnið stendur með annan fótinn á traustum grunni fortíðar en horfir jafnframt björtum augum til framtíðar.

Sjálfan afmælisdaginn, þriðjudaginn 25. apríl, verður opnuð sýning í safninu tileinkuð sögu þess. Amtsbókasafnið býður alla hjartanlega velkomna á sýninguna sem verður formlega opnuð af Eiríki Birni Björgvinssyni bæjarstjóra kl. 14. Boðið verður upp á kaffi og léttar veitingar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó