Appelsínugul viðvörun – Trampólín á flugi um Akureyri

Eitt af trampólínunum sem fauk á Akureyri í morgun. Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystra.

Í gærkvöldi var varað við sérstaklega vondu veðri og gefið út appelsínugul veðurviðvörun frá 06.00 – 13.00 í dag, sunnudaginn 20. maí. Suðvestan stormur gekk um landið eða allt að 25 m/s og hviður sem sumstaður fóru í 45 m/s. Nú tekur við gul viðvörun sem á að standa til miðnættis í kvöld. Talið er að vindurinn minnki með kvöldinu en í tilkynningunni segir:

Gul viðvörun, gildir frá 03:00 – 23:59
Gengur í sunnan storm, einkum á Eyjafjarðarsvæðinu. Dregur úr vindi annað kvöld. Almenn fokhætta fyrir létta hluti á öllu spásvæðinu. Erfitt ferðaverður, einkum fyrir vegfarendur á bifreiðum sem taka á sig mikinn vind og á hið sama við um létta tengivagna.

Fjöldi trampólína fuku um Akureyri í morgun 
Lögreglan á Norðurlandi eystra segir í tilkynningu á facebooksíðu sinni að trampólín hafi verið í aðalhlutverki hjá þeim í morgun. Þá voru þau nokkur sem fuku þrátt fyrir að hafa verið fest niður með einhverjum hætti. Lögreglan biðlar til fólks að huga að lausamunum og tryggja þá eftir bestu getu.

 

UMMÆLI