Arna Lind gefur út barnabók: „Mikilvægt að hjálpa börnum að yfirstíga kvíða“

Arna Lind gefur út barnabók: „Mikilvægt að hjálpa börnum að yfirstíga kvíða“

Akureyringurinn Arna Lind Viðarsdóttir hefur gefið út barnabókina Kvíðapúkinn. Bókin er hugsuð sem stuðningsrit fyrir krakka sem glíma við kvíða.

„Það er mikilvægt að hjálpa börnum að yfirstíga kvíða. Fyrsta skrefið er að auðvelda þeim að ræða vandann. Bókin Kvíðapúkinn hjálpar til við að opna á umræðuna,“ segir Arna í spjalli við Kaffið.is

Arna er lærður leikskólakennari og tveggja barna móðir. Hún segist lesa rosalega mikið, sér til skemmtunar og fyrir börnin sín, og segir það mikilvægt að lesa fyrir börnin sín og halda því áfram þó þau séu sjálf orðin læs.

Kvíðapúkinn fjallar um Aron sem er með skrítna tilfinningu í maganum þegar hann á að fara í leikskólann. Mamma hans segir honum þá frá kvíðapúkanum. Hún segir að púkinn komi þegar við kvíðum einhverju sem við þurfum bara alls ekki að hafa áhyggjur af. Aroni tekst að ná stjórn á kvíðanum og verður að endingu vinur púkans.

„Bókin er gott skref til að byrja að vinna með barninu þínu ef það sýnir einhver merki um kvíða. Kvíði er því miður vaxandi vandamál meðal barna og nær því miður nú orðið alveg niður til leikskólabarna. Það er mjög mikilvægt að grípa strax inn í og byrja strax að vinna með barninu að vandamálinu. Allir upplifa kvíða á einhverjum tímapunkti í lífinu, en þegar kvíðin er farin að stjórna okkur og hafa áhrif á daglegt líf þá er mikilvægt að byrja að vinna með hann,“ segir Arna.

Arna hefur sjálf reynslu af kvíða og hún segir að hugmyndin að bókinni hafi komið þegar að sonur hennar byrjaði að sýna kvíðaeinkenni á leikskólaaldri.

„Ég ákvað að skrifa bókina þegar ég byrjaði að sjá kvíðaeinkenni hjá syni mínum og hafði farið á bókasafnið og ekki fundið efni sem hentaði að lesa fyrir hann um kvíða á þann hátt sem hann myndi skilja hvað það væri sem ég var að lesa um fyrir hann,“ segir Arna.

„Um leið og ég tók eftir einkennum fór ég að vinna í kvíðanum með honum. Ég missti sjálf af allskonar hlutum sem barn vegna kvíða og bróður minn lét lífið á síðasta ári eftir að hafa barist við ofsakvíða allt sitt líf. Það er eitthvað sem maður myndi ekki óska neinum. Þannig einstaklingar fá hreinilega aldrei almennilega hvíld.“

Sjálf segir hún að sem barn hafi hún alltaf verið hrædd um að gera eitthvað vitlaust og þess vegna hafi hún misst af miklu.

„Kennarinn er að fara að láta lesa upphátt í tíma, ég fer yfir í huganum hversu margir verði á undan mér og hvernær ég sé best að óska eftir að skreppa á klósettið á akkurat réttum tíma áður en röðin færi að koma að mér. Eitthvað nýtt og spennandi spil, tæki eða eitthvað slíkt sem allir eru sjúkir í að prófa, mig langaði en nei sleppum því. Allir eru að fara að horfa á mig á meðan og hvað ef ég geri mig að athlægi,“ segir Arna.

„Ég hef unnið markvisst með þetta síðustu ár, ýtt sjálfri mér út fyrir þægindarramman og er í dag með mun betri tök á kvíðanum. Kvíðinn er aldrei alveg horfin en ég get unnið með hann og í langflestum tilvikum er hann ekki lengur að hamla mér í daglegu lífi.“

COMMENTS