Auður ráðin sem verkefnastjóri áfangaáætlunar

Auður ráðin sem verkefnastjóri áfangaáætlunar

Auður Ingólfsdóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri áfangastaðaáætlunar og kemur inn í teymi Markaðsstofu Norðurlands í lok september, en hún mun starfa á Sauðárkróki. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands.

Í sumar auglýsti Markaðsstofa Norðurlands eftir umsóknum í starf verkefnastjóra áfangastaðaáætlunar. Starfið felur í sér náið samstarf við ferðaþjónustufyrirtæki og sveitarfélög á öllu Norðurlandi að þróun og uppbyggingu áfangastaðarins. Í starfinu felst meðal annars að innleiða og framkvæma áfangastaðaáætlun, stefnumótun, vöruþróun og nýsköpun í samstarfi við ferðaþjónustuna og þróun sjálfbærrar ferðaþjónustu.

Auður er með meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands, diplóma í ferðafræði frá Menntaskólanum í Kópavogi og bakkalárgráðu í leiklist og leikstjórn frá Rose Bruford háskólanum í Bretlandi. Hún hefur áður starfað sem verkefnastjóri hjá markaðsdeild Elko, viðskiptastjóri hjá Gray Line og hjá Extreme Iceland í sölu- og markaðsdeild. Auk þessa hefur hún unnið að margvíslegum verkefnum í leiklist.

UMMÆLI