Prenthaus

Auðveldari leið milli Akureyrar og útlanda

Halla Björk ásamt Jóni Þorvaldi skrifar:

Eitt af kosningamálunum L-listans er Akureyrarflugvöllur og betri tenging til útlanda. Þar þarf að byggja upp og koma á millilandaflugi. Margir taka undir með okkur í þessum efnum.

En hver er staðan?  Hvað þarf að gera?

Við þurfum að vinna heimavinnuna og gera flugvöllinn kláran fyrir verkefnin.

Það þarf að halda áfram að markaðssetja Norðurland erlendis til að lokka að ferðamenn. Slík vinna var einmitt sett af stað í meirihlutatíð L-listans í formi Air66. Hlutverk bæjarins og Norðurlands alls, er að koma að fjármögnun þessarar kynningarvinnu.  Slíkt ætti að skila sér til baka vegna aukinna umsvifa og atvinnuuppbyggingar sem verður á svæðinu í kjölfarið. Sama á raunar við um hlut ríkisins.

Til að erlendir ferðamenn eigi greiða leið til Akureyrar og Norðurlands þarf að vinna að tveimur atriðum samhliða.  Annars vegar þarf áfram að vinna að því markmiði að koma á beinu flugi frá Akureyri til a.m.k. einnar borgar í Evrópu.  Líklega yrði það Kaupmannahöfn eða London.  Bein tenging Akureyrar til útlanda myndi skipta miklu, beint flug er að öllu eðlilegu ódýrasti og fljótlegasti ferðamátinn.

Ein aðal ástæðan fyrir áhuga Akureyringa og Norðlendinga á beinu flugi er sú að við viljum gera það auðveldara að komast til og frá útlöndum. Beint flug eykur lífsgæði íbúanna og gerir það auðveldara að eiga hér heimili en stunda vinnu sem krefst ferðalaga til útlanda. Það er því ljóst að beint flug á milli Akureyrar og Evrópu þjónar bæði þeim tilgangi að fá ferðamenn á svæðið og að einfalda ferðalög Norðlendinga út í heim.

Hins vegar þarf að vinna að betri tengingu Akureyrar við Keflavík og að því vill L-listinn vinna.  Það er ekki síst í ljósi þess að tenging Akureyrar til Ameríku verður að öllum líkindum um Keflavík um fyrirsjáanlega framtíð. Bandarískir ferðamenn eru stór hluti erlendra ferðamanna á Íslandi en þeir eru fjölmennastir þeirra sem fara um Keflavíkurflugvöll.  Flug milli Keflavíkur og Akureyrar er komið af stað en það hefur verið stopult og þarf að bæta stórlega. Nú er aðeins flogið á veturna beint til Keflavíkur, og aðeins miðað við Evrópuflug – og þá mest við flug Icelandair. Þetta er hægt að stórbæta. Gerum tengiflug með öllum flugfélögum mögulegt sem og að fara út og inn í Keflavík. Stefnum auk þess að flugi sem hentar Ameríkufluginu því kannski vilja Norðlendingar líka komast til Bandaríkjanna og Kanada og þarlendir að komast til Norðurlands.  Það er reyndar spurning hvort ekki sé réttast að ríkið komi að þessu flugi á annan hátt en í gegnum flugþróunarsjóð og bjóði út þessa flugleið til tveggja eða þriggja ára til að fá stöðugleika.

Auk þess þarf að styðja við flugi inn á svæðið með svipuðu fyrirkomulagi sem Super Brake viðhafði síðasta vetur.  Ef svona flug gengur frá Bretlandi, ætti það þá ekki að geta gengið frá öðrum borgum í Evrópu einnig svo sem frá Þýskalandi? Slíkt flug skiptir sköpum fyrir vannýttar fjárfestingar að vetri svo sem hótel og veitingastaði. Fleiri ferðamenn að vetri með þessum hætti stórbæta nýtingu hótela á ársgrundvelli og það eykur líkur á að ný hótel rísi á Akureyri.  Það er eftirsóknarvert því ekki er gott að öll eftirspurn ferðamanna lendi á íbúðamarkaðnum og geri leigumarkaðinn erfiðari fyrir almenning og erfiðara að flytja til Akureyrar.

Okkur hjá L-listanum klæjar í fingurna að beita okkur í þessum málum í nafni bæjarbúa allra.

Halla Björk skipar 1. sæti og Jón Þorvaldur skipar 11. sæti L-listans á Akureyri.  

Jón Þorvaldur ásamt Höllu skrifar:

UMMÆLI

Sambíó