Gæludýr.is

Ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð í tilefni af baráttudegi verkalýðsins 

Ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna við Eyjafjörð í tilefni af baráttudegi verkalýðsins 

Líkt og í fyrra er baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, haldinn hátíðlegur við sérstakar aðstæður. Áhrif kórónuveirufaraldursins eru alls staðar merkjanleg, hvort heldur er í félagsstarfi, atvinnulífi, heimilislífinu eða daglegum athöfnum einstaklinga. Við þessar aðstæður sjáum við sem aldrei fyrr að samstaðan er það sem öllu máli skiptir. Með ágætri samstöðu landsmanna höfum við náð að forðast yfirálag á heilbrigðiskerfið, höfum verið samstíga í því að verja viðkvæmustu hópa samfélagsins og höfum á margan hátt geta notið meira frelsis en margar aðrar þjóðir. 

Þó við gleðjumst öll yfir því að sjá ljósið við enda ganganna með auknum bólusetningum þá þurfum við alltaf að halda vöku okkar. Við búum í landi þar sem enginn þarf að líða skort. Nóg er til skiptanna í þessu gjöfula landi. Íslendingum er gestrisni í blóð borin og við höfum gjarnan á orði að það sé nóg til þegar við bjóðum gestum okkar að njóta veitinga. Við viljum deila og að aðrir njóti. 

Þessa hugsun skulum við hafa að leiðarljósi nú þegar baráttudagur verkalýðsins rennur upp. Við verðum að standa vörð um að þeir sem hafa nóg noti ekki tækifærið til að fá sér meira heldur deili með öðrum svo allir fái örugglega eitthvað. Í kjölfar samdráttarskeiðs verður uppbygging. Þannig hefur það alltaf verið. Við þær aðstæður þarf að standa vörð til þess einmitt að allir njóti þess að hafa lagt á sig á samdráttarskeiðinu. Við munum alltaf berjast af krafti fyrir því í verkalýðshreyfingunni að fáir skammti sér ekki verðlaun fyrir góðan árangur og nýti sér þannig árangur af samtakamætti fjöldans. Það er fólkið sem á að njóta. 

Það er sannarlega nóg til skiptanna á Íslandi. Látum aldrei sannfæra okkur um annað. Afkoma samfélagsins á Íslandi á fyrri hluta 21. aldarinnar er með því allra besta sem þekkt er í sögunni ekki bara á Íslandi heldur í allri veröldinni. Við skulum með kraft samstöðunnar að vopni skipta þessum árangri með okkur af sanngirni vegna þess að með góðum vilja geta allir á Íslandi notið mannsæmandi lífskjara. Hægur er vandinn. 

Góðir félagar. Stéttarfélögin á Eyjafjarðarsvæðinu óska félagsmönnum sínum til hamingju með alþjóðadag verkalýðsins 1. maí. 

Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar og 1. maí nefndarinnar 

Skoða nánar:  www.verkalydsdagurinn.is

Sambíó

UMMÆLI