Baccalá Bar opnar á ný á morgun

Baccalá Bar opnar á ný á morgun

Á morgun, 1. apríl, opnar veitingastaðurinn Baccalá Bar á ný eftir vetrarlanga lokun (og það er ekkert aprílgabb). Þau Sölvi Antonsson og Steinunn Ásta Eiríksdóttir eru nýir rekstraraðilar veitingastaðarins, sem hingað til hefur verið í rekstri Elvars Reykjalín.

Byggja starfið á góðum grunni

Sölvi og Steinunn segjast ekki vilja breyta of miklu, frekar byggja ofan á það góða starf sem Elvar hefur hingað til unnið. Þó hafa veitingasalirnir tveir fengið smá andlitslyftingu, ásamt því sem matseðillinn hefur tekið smávægilegum breytingum og útibar verður tekinn í gagnið þegar líður á sumarið. Áfram vinnur staðurinn náið með Elvari og fær frá honum allan fisk sem notaður er í matreiðslu. Þar að auki eru þau í samstarfi við B. Jensen og fá þaðan hágæða kjöt til að bjóða viðskiptavinum upp á. Þegar þau voru spurð út í matseðilinn segjast þau hafa snúist í marga hringi og verið óviss um hvaða nálgun þau vildu taka en loks ákveðið að einblína bara á gæðamikið hráefni og nýta það eins vel og hægt er. „Við komumst bara að þeirri niðurstöðu að það þarf ekki að breyta því sem virkar,“ segir Sölvi.

Sameina krafta sína til að skapa jákvæða upplifun fyrir viðskiptavini

Sölvi sjálfur er Akureyskur matreiðslumeistari en Steinunn er grafískur hönnuður og listamaður sem á rætur sínar að rekja til Hauganess. Saman hefur þeim tekist að skapa notalegt umhverfi fyrir gesti og matseðil sem ætti að hæfa öllum.

Ekki verður hægt að panta borð á veitingastaðnum en til þess að mæta eftirspurn mun staðurinn opna snemma og loka seint. Með því að hafa lokað fyrir borðpantanir eru þau að reyna að stuðla að skilvirkni og sömuleiðis hvetja fólk til þess að taka rölt um þorpið ef svo vill til að það þurfi að bíða eftir borði. Sölvi segist ekki hræddur um að þetta fyrirkomulag muni valda því að vísa þurfi mörgum frá, í raun bara þvert á móti. Hann segir þetta fyrirkomulag ríkja í flestum löndum Skandinavíu og Evrópu og virki þar vel. „Flæði viðskiptavina verður í raun meira og léttara með þessu fyrirkomulagi“, segir Sölvi og vonast til þess að hafa ekki rangt fyrir sér. Þau taka þó fram að ef um stærri hópa ræðir er að sjálfsögðu hægt að hafa samband og taka frá borð eftir samkomulagi.

Þau ætla sér fyrst og fremst að taka komandi hlutverki með æðruleysi því með hverju vandamáli fylgir lausn. Mikil spenna ríkir fyrir komandi tímum og þeirra tækifæra sem árið mun hafa upp á að bjóða.

Hér að neðan má sjá myndir af nýuppgerðum Baccalá Bar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó