Bæjarstjórn vill að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram miðstöð innanlands- og sjúkraflugs

Reykjavíkurflugvöllur.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti bókun á síðasta fundi bæjarstjórnar um framtíð innanlandsflugs og sjúkraflugs fyrir allt landið. Þar segir að bæjarstjórn vilji að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram miðstöð innanlandsflugs og sjúkraflugs þangað til að jafngóð eða betri lausn finnst.
Þá ítreka þeir áskorun sína frá því í janúar um að SV/NA flugbrautin verði opnuð aftur svo tryggja megi að sjúkraflugvélar geti lent á Reykjavíkurflugvelli, en síðasta vetur gerðist það ítrekað að ekki var hægt að lenda á vellinum vegna veðurs eftir að brautinni var lokað.

Hér að neðan má sjá greinargerðina í bókun bæjarstjórnar.

Bæjarstjórn Akureyrar leggur áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram miðstöð innanlandsflugs og sjúkraflugs fyrir landið allt, þar til jafngóð eða betri lausn finnst. Fram hefur komið á undangengnum vikum að það er langtímaverkefni að finna jafngóða eða betri lausn og getur tekið tugi ára. Það er því óhjákvæmilegt að tryggja rekstur Reykjavíkurflugvallar þannig að hægt sé að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir s.s. að byggja nýja flugstöð og lagfæra útlit umhverfis flugvöllinn svo sómi sé að. Þá ítrekar bæjarstjórn bókun bæjarráðs Akureyrar frá 5.1.2017 þar sem þess var krafist að SV/NA flugbrautin verði opnuð aftur svo tryggja megi að sjúkraflugvélar geti lent á Reykjavíkurflugvelli, en það gerðist ítrekað sl. vetur að ekki var hægt að lenda á vellinum vegna veðurs eftir lokun brautarinnar. Það er svo enn alvarlegra mál að slík flugbraut er ekki til á öllu SV horni landsins, þar sem eina hátæknisjúkrahús landsins er staðsett.
Bæjarstjórn Akureyrar skorar því á stjórnvöld og ekki síst tilvonandi þingmenn að beita sér áfram í þessu máli og finna lausn til frambúðar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó