Prenthaus

Birgitta Sif komst í topp form á súlunni

Birgitta í keppni.

Birgitta Sif Jónsdóttir er akureyringur, íþróttakona og eigandi pole fitness stúdíós í bænum. Kaffið sló á þráðinn til hennar og fékk að forvitnast aðeins um líf hennar, pole fitnessið og árangurinn.
Birgitta byrjaði að stunda pole fitness árið 2011, þá 26 ára gömul, á námskeiði hjá Heilsu Akademíunni í Egilshöll. Þá var enginn staður á Akureyri sem bauð upp á pole fitness og því nýtti hún sumarfríið sitt í að fara suður og prufa.

„Fyrir það hafði ég bara verið að lyfta og hélt að ég væri amk pínu sterk, en sú pæling fauk út í veður og vind í fyrsta pole tímanum mínum þar sem að styrkurinn sem ég hafði safnað í ræktinni nýttist lítið sem ekkert, mig vantaði kjarnstyrkinn”, segir Birgitta.

Birgitta í stúdíóinu sínu við æfingar.

Í dag hefur Birgitta hinsvegar opnað pole fitness stúdíó ásamt systur sinni, sem ber heitið Phoenix Pole Studio. Hún segist aldrei hafa verið í jafn góðu formi og nú en t.a.m. tók hún þátt í keppni um sterkustu konu Íslands í fyrra og hélt alveg í við hina keppendurnar þó svo að hún hafi ekki hafnað á verðlaunapalli.

Birgitta að draga vörubíl í keppni Sterkustu konu Íslands.

Aðspurð segist Birgitta ekki fara í neinar ýkjur í mataræðinu þó svo að hún reyni að halda mataræðinu í þokkalegum skorðum.
„Á sama hátt og maður setur ekki bensín á diesel bíl þá gengur líkaminn betur á hollum mat en óhollum. Ég er ekkert að pína mig til að borða eitthvað sem ég vil ekki, eða banna mér að borða eitthvað sem mig langar í nema kannski þegar styttist í keppni. Það gefur augaleið að ef maður keppir í því að lyfta eigin líkama oft og mörgum sinnum og á fjölbreyttan máta þá hjálpar til að líkaminn sé örlítið léttari.”

Rymjandi kraftlyftingarmaður eða súludansari?
Það reynist mörgum erfitt að greina á milli pole fitness og súludans, en þeir sem íþróttina stunda vita það best að munurinn er mikill. Birgitta segist alveg hafa fundið fyrir ýmsum fordómum og fáfræði tengdu íþróttinni en undirstrikar jafnframt að það fylgi öllu.

„Fordómar og fáfræði fylgja öllu. Og ég ætla ekki að segja að súludans sé eitthvað neikvætt, við erum jú alveg stundum að dansa, allar hreyfingar milli trikka á súlunni má kalla dans. En ég hef líka verið kölluð ýmislegt, strippari og erótískur dansari og svona skemmtilegt. Svo fæ ég mjög reglulega þessa ófrumlegu spurningu frá hinu kyninu um hvort það mætti ekki koma bara og horfa á. Þá sjá þeir fyrir sér að við séum bara að dilla rassinum og sveifla hárinu. En staðreyndin er að við erum meira og minna kófsveittar, rymjandi eins og kraftlyftingamenn, eldrauðar í framan eða klúðrandi trikkunum þangað til þau takast. Já eða liggjandi bugaðar í gólfinu.”

Lætur sjálfsofnæmissjúkdóm ekki stoppa sig

Birgitta hefur náð frábærum árangri með heilbrigði og góðri hreyfingu.

Það er nokkuð ljóst að Birgitta er hörð af sér og greinilega með sterkt keppnisskap en hún greindist með sjálfsofnæmissjúkdóminn ‘Hashimoto Thyroiditis’ þegar hún var ólétt af stráknum sínum fyrir um 10 árum. Sjúkdómurinn veldur vanvirkni í skjaldkirtli og ber ábyrgð á hægari efnaskiptum í líkamanum.

„Þetta gerir mann eiginlega að allsherjar aumingja og þrátt fyrir að ég sé lyfjum við þessu þá verð ég aldrei jafn heilbrigð og ég væri ef ég þyrfti þau ekki. Áður en ég fékk greiningu árið 2008 þá var ég tæp 100 kg og réði varla við að halda á 5 kg handlóði” segir Birgitta um áhrif sjúkdómsins á íþróttaiðkun sína.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó